„Verður að vera betra aðgengi að Austurlandi í gegnum flug“

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hyggst taka upp málefni innanlandsflugs á næsta fundi sínum með forstjóra Icelandair. Hún hefur trú á framtíðaráætlunum félagsins en segir traustar samgöngur og aðgengi að fjármagni lykilþætti að uppbyggingu Austurlands.

„Tilgangur ferðar minnar hingað austur er að vinna að aðgerðaáætlun á sviði menningar annars vegar, ferðaþjónustu hins vegar. Við heyrum í heimafólki með hvernig það vilji forgangsraða á þessum sviðum og við nýtum okkur til að forgangsraða og hrinda í framkvæmd eins miklu og við getum,“ segir Lilja.

Hún kom austur á þriðjudagskvöld, fundaði þá strax með Framsóknarfólki en hitti í gær sveitarstjórnarfólk og fyrirtæki á Héraði innan hennar ráðuneytis. Hún hefur í dag verið á Fáskrúðsfirði og í Neskaupstað en opnar klukkan 17 Sláturhúsið á Egilsstöðum eftir endurbætur. Á morgun heimsækir hún Farskóla safnafólks, sem haldinn er á Hallormsstað og Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri.

Þá fundaði hún í gær með forsvarsfólki úr austfirskri ferðaþjónustu. „Hljóðið í þeim var gott en það voru ákveðnar hindranir sem við þurfum í sameiningu að ryðja úr vegi,“ sagði Lilja að loknum þeim fundi.

Innanlandsflugið brennur á Austfirðingum

Ein af þessum hindrunum sem um ræðir er sá vandræðagangur sem verið hefur á áætlunarflugi Icelandair innanlands undanfarið nær samfellt frá áramótum. Innanlandsflugið brann líka á sveitarstjórnarfólki og fleirum sem Lilja hefur hitt eystra síðustu daga.

„Það verður að vera betra aðgengi að Austurlandi í gegnum flug. Við sjáum að innanlandsflugið er brothætt og við sem samfélag verðum að styðja betur við það.

Ég hef átt samtöl við Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair, sem mér finnst hafa mjög góða sýn á hvernig flugsamgöngur eigi að þróast í landinu. Ég þori að fullyrða að hann sé einn af þeim forstjórum Icelandair sem hafa haft mesta ástríðu fyrir því að bæta samgöngur á landsbyggðinni í gegnum innanlandsflugið.

Miðað við hans yfirlýsingar er ég því nokkuð vongóð um að við sjáum umbætur. Það er ekki bara við Icelandair að sakast. Við horfumst í augu við áskoranir í heiminum vegna Covid og stríðsins í Úkraínu sem valda því að allt tekur tíma og það vantar varahluti víðar er hér.

Stefnan er hins vegar góð. Þetta er ekki flugfélag sem ekki vill auka framboðið heldur þvert á móti lyfta upp innanlandsfluginu því það telur það gott fyrir sinn rekstur líka. Þá orðræðu man ég ekki eftir að hafa heyrt jafn skýrt og nú. Ég mun hins vegar taka aftur stöðuna á þessum málum.“

Aðspurð um aðkomu ríkisins að innanlandsflugi bendir Lilja á að fyrir tveimur árum hafi verið komið á Loftbrúnni auk þess sem ríkið geti beitt sér að því að bæta flugvöllinn í Reykjavík.

Vetrarþjónusta Vegagerðarinnar

Þótt samgöngumál séu ekki innan ráðuneytis Lilju segir hún þau skipta miklu máli fyrir hennar málaflokka. „Góðar samgöngur eru lykilatriði þess að Austurland blómstri, fyrir ferðaþjónustu og menningu á svæðinu. Ef þær eru ekki góðar þá er landssvæðið einangrað þann tíma sem við erum að reyna að lengja að ferðafólk komi.“

Það einskorðast ekki við flugsamgöngurnar. „Við þurfum að vinna betur með Vegagerðinni því ferðaþjónustuaðilar vilja að lykilvegir að náttúruperlum á borð við Dettifoss og Stuðlagil séu aðgengilegir allt árið. Ég mun því í kjölfar þessarar heimsóknar funda með vegamálastjóra og fleirum til að ítreka hagsmuni ferðaþjónustunnar hér í vega- og flugsamgöngum. Ég er mjög ákveðin í þessu.“

Erfitt aðgengi að fjármagni

Á fundinum í gær var einnig rætt um aðgengi uppbyggingarverkefna á Austurlandi að fjármagni. „Ferðaþjónustuaðilar sem og framkvæmdastjóri Samtaka aðila í ferðaþjónustu (SAF) sem sat með okkur kvörtuðu yfir að aðgengið væri ekki nógu gott.

Ég lagði áherslu á að fjárfestingarstig skiptir þjóðir og samfélög öllu máli. Ef það er ekki 20-30% þá vex samfélagið ekki. Ég hef sett í gang vinnu við að skoða fjármunamyndun í samfélaginu og skoða hvernig Austurland kemur þar út með það í huga að ryðja úr vegi hindrunum. Samgöngurnar kunna að vera hluti þess, að áhættan minnki ef þær batni. Þá munu SAF og Ferðamálastofa fara í samvinnu við að auka aðgengi að góðum hagtölum til að styðja við uppbyggingu hér.

Austurland hefur mjög margt að bjóða ferðamönnum og því met ég langtímahorfurnar góðar, að því gefnu að framfarir verði í samgöngum og aðgengi að fjármunum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.