Verður að finna leið til að gera strandveiðikerfið sanngjarnt fyrir allt landið
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. júl 2023 12:44 • Uppfært 03. júl 2023 12:46
Yfir 80% úthlutaðs kvóta til strandveiða hefur þegar verið veiddur. Útlit er fyrir að veiðarnar gætu stöðvast áður en verðmætasti fiskurinn gengur austur fyrir land. Slík staða hefur verið uppi áður en kerfinu hefur ekki verið breytt þrátt fyrir þrýsting smábátasjómanna á Austurlandi.
Samkvæmt tölum frá Landssambandi smábátasjómanna (LS) var fyrir helgi búið að landa 8.027 af þeim 10.000 tonnum sem heimilt er að veiða á strandveiðivertíðinni. Ríflega helmingi þess afla hefur verið landað á svæði A, sem nær frá Snæfellssnesi norður á Strandir.
Á svæði C, sem nær frá Skjálfanda austur að Lóni, hafa veiðst 963 tonn. Alla jafna gengur stærsti og verðmætasti fiskurinn inn á það svæði seinna en önnur, það er í júlí og ágúst en nú er útlit fyrir að kvótinn og þar með veiðarnar klárist áður en Austfirðingar geta hafið veiðar af alvöru.
Frumvarpið færði óréttlætið til
Á þetta hefur verið bent og í vetur lagði matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, fram tillögur að breytingum á strandveiðikerfinu. Áður var kvótanum skipt eftir veiðisvæðum en með breytingu 2018 urðu aflaheimildirnar sameiginlegar fyrir allt landið. Þróunin hefur orðið sú að afli og strandveiðibátum á svæði A og einnig B en einkum svæði C gefið eftir.
Á annað hundrað umsagnir bárust um tillögurnar í samráðsgátt stjórnvalda. Að lokum fór það svo að ráðherra féll frá teljandi breytingum fyrir þessa vertíð.
„Frumvarpið var ekki gallalaust. Þessar breytingar hefðu leitt til þess að svæði A hefði misst helminginn af sínum besta fiski. Þannig hefði óréttlætinu verið sveiflað á milli landshluta. Við erum á því að það þurfi að laga kerfið fyrir svæði C þannig að það verði sanngjarnt fyrir allt landið. Til þess verður að finna leið,“ segir Kjartan Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands (STÍ).
Ekki hlustað á aðrar lausnir
Forsvarsfólk STÍ kom austur um helgina og hélt fundi á Þórshöfn, Borgarfirði og í Neskaupstað. Kjartan segir ferðina hafa verið farna til að heyra hljóðið í strandveiðifólki eystra. „Það bendir allt til þess að sama staða komi upp og í fyrra. Þá tókum við þessu þegjandi en ætlum ekki að gera það í ár.“
Hann segir að í athugasemdum við frumvarpið hafi komið fram aðrar lausnir en þær ekki fengið brautargengi. Þannig hafi STÍ og LS verið sammála um að fækka þeim dögum sem hver bátur hefur til veiða á mánuði úr 12 í 11, gegn því að ákvæði um að veiðar væri stöðvaðar um leið og kvótinn kláraðist. Eins þyrfti að endurskoða skiptingu kvótans eftir mánuðum. Þessar lausnir hefðu hefðu átt að leiða til jafnari veiða milli landshluta.
„Það læðist okkur grunur um að ekki eigi að laga kerfið heldur gera það svo erfitt að fólk gefist upp og þar með sé veiðunum sjálfkrafa hætt. Ég er orðinn það svartsýnn. Þetta eru umhverfisvænar og félagslega ábyrgarveiðar sem styrkja brothættar byggðir. Þess vegna teljum við fulla ástæðu til að styrkja kerfið. Við höfum beðið eftir því en það ekki gerst og erum orðin óþreyjufull og vinsvikin,“ segir Kjartan.
Óvenju góð fiskgengd
LS hefur undanfarna daga þrýst á ráðherra um að auka strandveiðikvótann um 4.000 tonn til að tryggja veiðar um allt land í sumar. Kjartan segir að innan STÍ sé rætt hvað annað sé hægt að gera til að styðja við veiðarnar eystra.
Þegar litið er yfir aflatölurnar frá LS sést að standveiðiaflinn eystra, sem annars staðar, er orðinn óvenju mikill í lok júní. Á svæði C hafa verið meidd 963 tonn af þorski saman borið við 725 tonn í fyrra, 650 tonn 2021 og 590 árið 2020. Kjartan bendir þó á að þær tölur segi ekki alla söguna.
„Það hefur verið betri fiskgengd um allt land í vor. Samt sem áður þá er enn mikið af smáfiski, sem er ekki jafn verðmætur, í maí og júní fyrir austan.“