Verðum að ræða hvernig hægt er að dreifa ferðafólki um landið á veturna

Erfitt er að ætla hvort austfirskir ferðaþjónustuaðilar hafi orðið fyrir teljandi tapi vegna mikillar ófærðar yfir hátíðarnar líkt og reyndin virðist hafa orðið sums staðar annars staðar á landinu. Hóteleigandi á Austurlandi bendir þó á að tryggja verði greiðar leiðir að vinsælum stöðum um allt land á veturna til að íslensk ferðaþjónusta dafni áfram.

„Það hefur stundum verið sagt að það sé áhætta að stunda vetrarferðamennsku á Austur- og Norðurlandi. Við sem búum á svæðinu og þekkjum til vitum hins vegar að einkum eftir tilkomu Vaðlaheiðarganga eru okkar vegir síst oftar ófærir en á Suðurlandinu. Ég lenti til að mynda sjálfur í því að vera veðurtepptur í Reykjavík í þrjá daga skömmu fyrir jól og það var ekki vegna færðar á Norðurlandi.

En það er ekki þarf með sagt að við þurfum ekki að velta fyrir okkur þjónustu Vegagerðarinnar. Ef ferðamennirnir eiga að koma norður eða austur á veturna þá verða þeir að hafa eitthvað að sækja.

Hvernig stendur á því að þótt allt sé á kafi í snjó í uppsveitum sunnanlands er alltaf rutt að Gullfossi og Geysi. Meðan er ekkert gert til að greiða okkar götur, til dæmis með að moka að Dettifossi. Um leið og þjónusta er fyrir hendi þá kemur fólkið. Væri hægt að gera fært inn að Stuðlagili á veturna,“ segir Þráinn Lárusson, eigandi 701 Hotels sem rekur Hótel Hallormsstað og Valaskjálf á Egilsstöðum.

Raunverulegan vilja vantar

Hann segir nauðsynlegt að efla ferðamennsku sérstaklega á landsbyggðinni eigi íslensk ferðaþjónusta sem heild að geta vaxið áfram. „Það er talað um að dreifa ferðamönnum um landið en vilji fylgir ekki máli, hvort sem það er hjá stjórnmálamönnum eða öðrum. Staðan er það það er vart annar kostur í boði en þriggja daga ferðir í kringum borgina. Þannig er hægt að hrúga nógu mörgum inn í landið í stuttan tíma þannig að flugfélögin og hótelin hafi nóg að gera.

Fyrir mörg hótel á landsbyggðinni er ódýrara að loka yfir veturna. Við höfum barist við að halda Valaskjálf og veitingastaðnum þar opnum, meðal annars yfir hátíðardagana, en við töpum peningum á því.

Ég var á fundi nýverið þar sem verið var að ræða um starfsmannaþörf í ferðaþjónustunni á næstu 3-5 árum út frá áætlaðri fjölgun ferðamanna. Ég spurði hvernig ætti að fjölga, hvort það ætti að taka allt inn til Reykjavíkur eða nýta fólk og rými sem lítið eru notuð á veturna. Það virðist ekki vera neinn áhugi á að tala um þetta.

Það hrukku margir við í sumar þegar ég sagði að við á Austurlandi gætum ekki tekið á móti fleirum yfir sumarið því plássið er þá fullbókað og frekari fjárfestingar borga sig vart miðað við hve fáir ferðamennirnir eru á veturna. Við höfum vissulega séð fleiri á ferðinni nú í vetur en áður en það er vart marktækt því það voru svo fáir áður,“ segir Þráinn.

Ferðaþjónustan breytt stöðu þjóðarbúsins

Ferðaþjónustuaðilar af Suðurlandi og víðar hafa gagnrýnt Vegagerðina harðlega síðastliðnar vikur vegna tjóns þeir sem hafi orðið fyrir vegna ófærðar. Þráinn segir hátíðarnar hafa komið þokkalega út fyrir 701 Hotels, einhverjar bókanir hafi færst til vegna ófærðar en ekki sé hægt að fullyrða að viðskiptin hefði verið meiri ef allt hefði verið fært.

Hann tekur hins vegar undir gagnrýni á að ekki hafi tekist að halda Reykjanesbrautinni opinni með þeim afleiðingum að millilandaflug lamaðist. „Við eigum að geta tekist á við snjó og getum ekki látið það spyrjast út um okkur að við getum ekki haldið einu leiðinni inn í landið á þessum árstíma. Við verðum að finna leiðir til að þetta gerist ekki aftur.“

Kröfur ferðaþjónustunnar um meiri þjónustu Vegagerðarinnar hafa meðal annars verið gagnrýndar á þeim forsendum að ferðaþjónustan leggi ekki nóg inn í þjóðarbúið. Þráinn telur þá gagnrýni tilhæfulausa. „Ég spyr mig hvort fólk geri sér ekki grein fyrir hversu mikið ferðaþjónustan leggur til þjóðarbúsins á ári. Það eru hundruð milljarða. Hvað á að gera í staðinn ef þessi tala minnkar?

Lilja Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarmálaráðherra, sagði okkur á fundi hér í haust að fyrir nokkrum árum hefði gjaldeyrisvaraforði Seðlabankans verið 5% og allur fenginn að láni. Nú sé hann hins vegar orðinn 25% í eigin fé. Þetta er ferðaþjónustunni að þakka.“

Þráinn telur Austurland eiga mikið inni í ferðaþjónustu yfir vetrartímann en það taki tíma og þrautsegju að efla hana. „Ég hef alltaf sagt að á Austurlandi séu miklir möguleikar og svæðið eigi mikið inni. Hins vegar er alltaf dýrt að brjóta ísinn. Tap hótela á landsbyggðinni vegna Covid-faraldursins var gríðarlegt og það tekur þau mörg ár að vinna sig úr úr því.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.