Verðmætasti farmur norðfirsks fiskiskips

Frystitogarinn Blængur NK kom til heimahafnar í Neskaupstað á sunnudagskvöld eftir að hafa verið í veiðum í Barentshafi frá því í lok apríl. Skipið með 500 tonn af frystum afurðum sem metnar eru á um 380 milljónir króna og mun vera verðmætasti farmur sem fiskiskip frá Norðfirði hefur komið með að landi.

Í frétt á vef Síldarvinnslunnar er haft eftir Bjarna Ólafi Hjálmarssyni, sem var skipstjóri seinni hluta veiðiferðarinnar eða eftir sjómannadag, að aflinn hafi verið nokkuð góð fyrri hluta ferðarinnar er rólegt seinni hlutann.

Síðustu þrjár vikurnar hafi verið afar rólegar, meðal annars því það svæði sem vænlegast var til veiði var lokað í viku vegna heræfinga.

„Vegna æfinganna þurftum við að færa okkur austar og austast vorum við einar 60 sjómílur frá Novaja Zemlja. Ég held að áhöfnin sé sátt við þennan Barentshafstúr þó veiðin hafi alls ekki verið jafn góð og síðustu ár. Það var skemmtileg reynsla að fara á þessar slóðir.

Öll samskipti við Rússana gengu vel og þar nutum við þess að Geir Stefánsson stýrimaður talar reiprennandi rússnesku. Rússarnir voru dálítið hissa þegar þeir uppgötvuðu rússneskumælandi mann um borð hjá okkur, þeir eiga líklega ekki slíku að venjast um borð í erlendum veiðiskipum sem sækja í Barentshafið,“ er haft eftir Bjarna Ólafi.

Aflinn í veiðiferðinni var alls um 1450 tonn upp úr sjó en er þá miðað við fisk sem ekki hefur verið gert að. Fyrirhugað er að skipið haldi aftur til veiða í kvöld.

Blængur í heimahöfn í byrjun vikunnar. Mynd: Síldarvinnslan/Karl Jóhann Birgisson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.