Verða að koma með popp og kók að heiman í bílabíó

Menningarstofa Fjarðabyggðar stendur í kvöld fyrir bílabíói á Eskifirði. Til stendur að standa fyrir fleiri slíkum sýningum á meðan samkomubanni stendur. Forstöðumaður Menningarstofuna segir gott fyrir fólk að komast út og brjóta upp hversdaginn innan allra reglna.

„Við gerum þetta til að koma til móts við þarfir fólks, að bjóða upp á afþreyingu þannig að fólk geti farið út og viðrað sig örlítið en þó innan allra marka um samkomubann,“ segir Ari Allansson, forstöðumaður.

Myndinni verður varpað upp á húsa Laxa fiskeldis við Strandgötu og hljóðið sent út í gegnum útvarpsbylgjur. Tvær myndir verða sýndar um helgina. Í kvöld gamanmyndin Nýtt líf eftir Þráinn Bertelsson en annað kvöld Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason, sem hluta til var tekin upp í Oddsskarðsgöngunum.

„Þetta eru hvort tveggja frábærar myndir sem maður myndi vilja sýna óháð samkomubanni. Þetta eru ólíkar myndir, við viljum að allir fái eitthvað við sitt hæfi.“

Áform eru síðan uppi um að halda slíkum sýningum áfram og láta þær flakka milli byggðarkjarna í Fjarðabyggð meðan samkomubann varir, sem ljóst er orðið að verður út apríl. Enginn aðgangseyrir verður á sýningarnar en gestir hvattir til að styrkja valið málefni, sem um helgina er Rauði krossinn á Eskifirði.

En þótt fólk safnist saman í bílum sínum verða smitvarnir áfram í hávegum hafðar. Þannig verður hvorki salernisaðstaða né nammisala á staðnum. Þá er fólk áminnt um að hafa aðeins með sér í bílunum annað fólk sem það umgengst dagsdaglega. „Við höfum verið í samskiptum við lögregluna hér til að gera þetta rétt. Hún hefur stutt vel við okkur.“

Fleiri bílabíó hafa verið haldin síðustu daga. Í Borgarnesi var einmitt Nýtt líf sýnd líka um síðustu helgi. „Ég held að það hafi margir fengu sömu hugmynd á svipuðum tíma. Við höfum verið í góðum samskiptum við Borgnesingana.

Ég held að fólk þrái örugglega að fara út. Maður finnur þetta hjá sjálfum sér, eftir því sem líður á. Það gerir gott að fara aðeins út og brjóta upp mynstur hversdagsins.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.