Venus með mest af loðnunni

Uppsjávarveiðiskipið Venus NS, sem er með skráða heimahöfn á Vopnafirði, fær mest allra skipa í sinn hlut af væntanlegum loðnukvóta. Byrjað er að leita að loðnunni sem heimilt var að veiða fyrir viku.

Sjávarútvegsráðherra undirritaði í síðustu viku reglugerð um úthlutun loðnukvótans og heimilaði um leið veiðar frá föstudeginum 15. október.

Af ríflega 900.000 tonna kvóta koma tæp 627.000 í hlut Íslendinga. Færeyingar fá tæp 30 þúsund, Grænlendingar tæp 67 þúsund og Norðmenn 75.760. Kvaðir eru þó um landanir og veiðitímabil, til dæmis mega norsku skipin aðeins veiða fram til 15. febrúar.

Af íslenska kvótanum fékk Heimaey VE mest af kvótanum, 10,5% en hluti hans var strax fluttur á önnur skip. Það sama hefur verið gert við næsta skip á eftir, Sigurð VE. Samkvæmt núverandi útreikningi Fiskistofu er Venus því með mest, 9,34% eða 58.548 tonn.

Alls eru skip með heimahafnir á Austurlandi með tæp 225.000 tonn. Skip Síldarvinnslunnar, Börkur og Beitir, eru með rúm 100.000, Aðalsteinn Jónsson og Jón Kjartansson hjá Eski með rúm 55 þúsund og Hoffell Loðnuvinnslunnar með tæp 11 þúsund.

Þá eru ótalin skip sem tengjast Austurlandi, heildarloðnukvóti Brims sem alla jafna er landað á Vopnafirði er tæp 112 þúsund. Í flota þess er auk Venusar Víkingur AK.

Skip Samherja og Gjögurs, sem gjarnan hafa landað eystra, fá rúm 74 þúsund tonn og Bjarni Ólafsson, dótturfélag Síldarvinnslunnar, tæp 16 þúsund. Kvóti skipa innan sömu útgerðar getur breyst eftir því sem vertíðinni vindur fram.

Polar Amaroq, skip grænlensks dótturfélags Síldarvinnslunnar, hefur undanfarna daga verið í loðnuleit milli Íslands og Grænlands. Ekki hefur fundist mikið magn en í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar í gær sagði stýrimaður á skipinu að aðeins væri tímaspursmál hvenær öll sú loðna sem mælst hefði í rannsóknarleiðöngum kæmi í ljós. Betra væri þó að fleiri skip tækju þátt í leitinni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.