Orkumálinn 2024

Velheppnuð ferð starfsfólks Loðnuvinnslunnar til Svartfjallalands

„Þetta var eins velheppnað og hægt var að vonast eftir en auðvitað kostaði þetta töluverðan undirbúning,“ segir Kristín Hanna Hauksdóttir, hjá starfsmannafélagi Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði.

Starfsmannafélagið er nýkomið úr níu daga ferð til Svartfjallalands sem félagsmenn skipulögðu að stóru leyti sjálf en Kristín segir það óskrifaða reglu hjá félaginu þegar ferðast er að heimsótt séu önnur lönd en þessi hefðbundnu og þá gjarnan líka í lengri tíma en gengur og gerist í slíkum ferðum sem oftar eru yfir helgi eða svo.

„Við hófum undirbúning að þessari ferð snemma í vetur, fengum flugvél undir okkur vandræðalítið og hún var fullsetin. Við reyndar bjóðum oft öðrum með okkur í slíkar ferðir og að þessu sinni buðum við fólki frá Síldarvinnslunni og RARIK sem hafa komið með okkur áður í svona ferðir.“

Kristín segir Svartfjallaland hafi komið flestum þægilega á óvart en þar er stórkostleg náttúrufegurð um allt. Ekki síðri hafi verið gamli bærinn í Dubrovnik í Króatíu sem hópurinn heimsótti líka einn daginn.

„Allt þetta svæði er reyndar miklu fallegra en maður gerir sér grein fyrir og hitastigið var yfirleitt á milli 25 og 30 stig sem var mjög þægilegt. Við fréttum reyndar eftir á að vorum dálítið heppin að koma svo snemma að sumri því aðalvertíðin þeirra á þessum slóðum er framundan og þá fyllist hér allt af fólki. Samt var nú töluvert af ferðafólki og við þurftum eiginlega alltaf að bóka borð á veitingastöðum með fyrirvara. Það kom aðeins á óvart en heilt yfir var ekki yfir neinu að kvarta og allir fóru mjög sáttir heim á ný.“

Hópurinn settist saman að kvöldverði lokakvöld ferðarinnar til Svartfjallalands. Mynd LVF

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.