Vegir á láglendi opna einn af öðrum en ófært yfir fjöllin

Snjóflóð féll yfir veginn í svokölluðum Kömbum á Vattarnesi síðdegis í gær og hefur vegurinn um nesið verið lokaður síðan. Hann hugsanlega opnaður á morgun.

Þetta staðfestir Sveinn Sveinsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi við Austurfrétt en samkvæmt hans upplýsingum er snjóspýjan á þeim stað heilir átta metrar á breidd og minnst þrír á hæð svo töluverður snjór hefur þar fallið niður.

„Þar sem þetta er vegur í takmarkaðri þjónustu þá förum við ekki í þetta fyrr en aðrir mikilvægari vegir hafa verið ruddir og ég gæti ímyndað mér að það verði á morgun ef veður leyfir.“

Framan af degi lokuðust margir fjallvegir austanlands vegna snjóa og þar á meðal Fjarðarheiðin og Vatnsskarð auk þess sem Upphéraðsvegur, frá Fellabæ inn í Fljótsdal lokaðist einnig um tíma. Sá síðastnefndi hefur verið opnaður að nýju en fjallvegirnir að mestu ófærir enn þegar þetta er skrifað ef frá er talinn vegurinn um Fagradal en þar hefur verið mokað linnulítið í allan dag.

Samkvæmt veðurspá á frost að herða töluvert á morgun þó vindur verði almennt hægur. Allt snýst þó við á föstudag og laugardag þegar frostið víkur fyrir rauðum tölum og það allt upp í 10 stiga hita á Egilsstöðum síðla laugardags. Auknum hita fylgir þó töluverður vindgangur og vindhviður allt upp í fimmtán metra á sekúndu gera vart við sig strax á föstudag ef spár ganga eftir.

Nokkur snjóflóð hafa fallið eystra síðustu daga. Aðfaranótt þriðjudags féll flóð í Grænafelli og samkvæmt yfirliti Veðurstofunnar féll flóð í suðausturhlíð Svartafjalls í Eskifirði á mánudag. Það var langstærst þessara þriggja, skráð á stærðinni 2,5 ot talið 50-100 metra breitt meðan hin tvö eru af stærðinni 1,5.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.