Vegagerðin sátt við frammistöðu Munck

Vegagerðin gerir engar athugasemdir þótt ekki hafi tekist að ljúka við tvo vegarkafla á Austurlandi sem danska fyrirtækið Munck Asfalt lauk ekki við að klæða í sumar. Samningur við félagið um malbikun á svæðinu nær til tveggja ára og rúmast verkin innan þess tíma.

Flokkur frá danska fyrirtækinu hefur verið á Austurlandi eftir að það átti lægsta tilboðið í að malbika svæði sem nemur 442 þúsund fermetrum á næstu tveimur árum.

Í svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn Austurfréttar kemur fram að Munck hafi klárað alla þá vegarkafla sem stefnt var að í sumar, utan tveggja, þar sem undirvinna tafðist. Samið hefur verið við aðra verktaka um að ljúka verkinu.

Nákvæm niðurröðun verka í ár réðist af veðri og öðrum aðstæðum, en sumarið eystra var nokkuð blautt í júlí og ágúst.

Í staðinn hefur verið samið um að Munck taki að sér aukaverk á næsta ári. Það muni því skila af sér því flatarmáli sem til er ætlast samkvæmt samningi. Ekkert tjón hljótist af þessu, samningurinn sé til tveggja ára og Munck komi aftur að ári. „Munck stóð við sitt, skilaði góðri vinnu og Vegagerðin er sátt,“ segir í svarinu.

Munck fékk verkið að undangengnu útboði. Félagið bauð 128 milljónir í verkið sem verðlagt var á rúmar 100 milljónir. Tvö önnur hærri tilboð bárust í það.

Munck Asfalt er hluti af Munck Gruppen en innan samsteypunnar er Munck Íslandi. Rekstur þess hluta hefur gengið brösuglega síðustu misseri og varð til þess að tap varð á rekstri samsteypunnar á síðasta ári. Dregið hefur verið úr umsvifunum Munck Íslandi vegna þess.

Mynd: Munck Gruppen

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.