Vegagerð hafin á ný í Berufirði

Framkvæmdir eru komnar aftur af stað við nýjan veg yfir Berufjörð eftir að samkomulag tókst um efnistöku. Vegagerðin hefur beðist afsökunar á að hafa farið fram úr efnistökuheimildum.

Vinna við veginn var stöðvuð í nóvember þar sem Djúpavogshreppur taldi Vegagerðina hafa farið gróflega fram úr heimildum til efnistöku úr námu í Svartagilslæk. Farið var fram á álit Skipulagsstofnunar á frekari efnistöku og hún stöðvuð.

Meira efni hefur þurft í veginn en upphaflega var áætlað þar sem hann hefur sigið mjög að norðanverðu. Sigið kom í veg fyrir að hægt væri að ljúka framkvæmdum síðasta haust, eins og áætlað var.

Hreppurinn hefur nú veitt leyfi til framkvæmda á ný eftir að Vegagerðin lagði fram áætlanir um efnistöku úr þremur námum á svæðinu sem lítið hafa verið nýttar enn. Alls er áætlað að teknir verði tæplega 11 þúsund rúmmetrar úr þeim.

Í bréfi Vegagerðarinnar, sem tekið var fyrir á fundi sveitarstjórnar í síðustu viku, er harmað að ekki hafi verið fylgt lögbundinni málsmeðferð og fengið leyfi fyrir því efni sem tekið var umfram úr Svartagilsnámu.

Vegagerðin vonast til að ekki þurfi að taka frekara efni úr námunni. Það verði ekki gert nema að fengnu leyfi hreppsins og að undangenginni athugun Skipulagsstofnunar á matsskyldu, sem stendur yfir.

Samkvæmt bréfinu á að fylla í veginn nú í janúar og fergja hann í febrúar. Fargið verður fjarlægt í lok maí og gengið í að klæða hann og klára. Áætlað er að opna hann formlega 1. júlí.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.