Vatnsverksmiðja skapi strax 6-8 störf

Undirbúningur að stofnun vatnsáfyllingarverksmiðju á Borgarfirði eystra er áfram í fullum gangi. Áformað er að reisa 900 fermetra byggingu yfir verksmiðjuna.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í deiliskipulagi fyrir verksmiðjuna og athafnasvæði hennar. Athugasemdafrestur við breytt aðalskipulag og deiliskipulag svæðisins rann út byrjun vikunnar.

Gert er ráð fyrir tæplega þriggja hektara lóð í landi Geitlands, um 1 km norðan við þorpið í Bakkagerði, undir verksmiðjuna og athafnasvæði hennar.

Þar kemur fram að í fyrsta áfanga verði reist á lóðinni 900 fermetra verksmiðja sem í byrjun þurfi 6-8 starfsmenn.

Borhola verður í landi Bakka, sem er í eigu Borgarfjarðarhrepps en sá bær stendur nær þorpinu en Geitland. Vatnsrennsli á svæðinu er talið vera 5-20 lítrar á sekúndu en starfsemin þurfi að hámarki 2 l/s. Vatnsvinnslan á því ekki að hafa áhrif á grunnvatnsrennsli. Áætluð heildarvinnsla á ári eru taldir 1-5 milljón lítra.

Rannsóknir og borgun verður á ábyrgð Vatnworks Iceland ehf., í nánu samstarfi við Borgarfjarðarhrepp og sérfræðinga um vatnsöflun. Orkustofnun þarf að gefa leyfi fyrir vinnslunni. Stofnunin fékk skipulagsdrögin til umsagnar og gerði ekki athugasemdir.

Gert er ráð fyrir að afurðirnar verði fluttar í gámum til næstu útflutningshafnar, að líkindum Reyðarfjarðar. Áhrif verksmiðjunnar fyrir samfélagið eru metin jákvæð þar sem hún muni styrkja fámenna byggð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar