Vatnsréttindi: Landsvirkjun vildi lækkun

karahnjukar.jpgLandsvirkjun vildi að greiðsla fyrir vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar yrði lækkuð í 770 milljónir króna. Fyrirtækið byggði kröfuna einkum á fordæmi frá Blönduvirkjun. Héraðsdómur Austurlands staðfesti í gær úrskurð matsnefndar frá árinu 2007 um að Landsvirkjun bæri að greiða landeigendum 1,6 milljarð króna fyrir vatnsréttindin.

 

Þegar Blanda var virkjuð voru vatnsréttindin metin 0,7% af heildar stofnkostnaði virkjunarinnar. Landsvirkjun benti á að bæri fordæmum um endurgjald fyrir vatnsréttindi stórra raforkuvera frekar en horfa á smærri framkvæmdir.

Fyrirtækið benti einnig á að virkjunarkostnaður og aðstæður til virkjunar skipti verulegu máli um vatnsréttindaverð. Hæpið væru að landeigendur gætu virkjað árnar á jafn hagkvæman hátt eða finndu kaupanda.

Ekki nóg að byggja málflutning á óvissri framtíð

„Ósannað sé með öllu að nokkur eftirspurn hafi verið eftir þeim réttindum sem hér sé um fjallað af hálfu annarra en stefnda. Þá sé jafnframt ósannað að slíkum aðila eða aðilum sé til að dreifa í framtíðinni. Ekki nægi að byggja málflutning á mögulegum framtíðarnotum, sem liggi í óvissri framtíð, því eins og alkunna sé, geti brugðið til beggja vona að því er varði hugsanlega framtíðarþróun.

Til grundvallar ákvörðun beri einkum að miða við hvað telja megi líklegt söluverð vatnsréttinda til aðila sem hafi yfir að ráða nægilegri tækniþekkingu, fjárhagslegu bolmagni og markaðsaðstöðu til að hagnýta þau,“ segir í röksemdum fyrirtækisins.

Verðmæti fallréttindanna bundin við að einhver fáist til að virkja þau

Minnt er á að engin virkjun sé án vatns og ekki sé sjálfgefið að eign sé í ónýttum vatnsheimildum, sérstaklega ekki þar sem kröfur um náttúruvernd hafi breyst.

„Í tilfelli Kárahnjúkavirkjunar sé um þröngan markað vatnsréttinda að ræða, sem rýri verðmæti þeirra. Verðmæti fallréttindanna sé bundið við að einhver fáist til að virkja þau, ella séu þau verðlaus“

Héraðsdómur féllst þó ekki fyllilega á þessi rök Landsvirkjunar.

„Í jaðri hins íslenska hagkerfis“

Landsvirkjun segir að eigin áhætta stefnenda hefði ekki verið nein. Austurland sé eyland í íslensku orkukerfi og hagkerfi. „Kárahnjúkavirkjun hafi þegar af þessari ástæðu algera sérstöðu meðal vatnsaflsvirkjana hér á landi. Kárahnjúkavirkjun sé staðsett á ystu mörkum raforkukerfisins og í jaðri hins íslenska hagkerfis, þar sem efnahagsleg umsvif hafi verið lítil og markaður fyrir raforku í samræmi við það.“

Vatnsréttarhafar njóta annarra jákvæða áhrifa

Fyrirtækið benti einnig á ný réttindi sem myndust hefðu með virkjunni, til dæmis hlunnindi af laxveiði. Þeir njóti einnig „jákvæðra samfélagslegra áhrifa á Austurlandi [af stóriðjuframkvæmdum] á jafns við aðra.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.