Vatnsleysi ekki vandamál í Vopnafirði

Vatnsleysi er ekki vandamál í laxveiðiám á Vopnafirði þar sem verið hefur ágætis veiði það sem af er sumri. Fiskurinn í ánni er á réttri leið eftir erfið ár.

„Veiðin er ágæt, það stefnir í fínt ár núna,“ segir Eyþór Bragi Bragason, leiðsögumaður í Hofsá.

Veiðin hefur hins vegar gengið misjafnlega á landinu, meðal annars vegna þess að lítið vatn er í ám. Það er ekki vandamál í Vopnafirði.

„Bæði Seláin og Hofsáin eru með mikið vatnasvið, þótt ekki rigni fara þær ekki niður fyrir ákveðið vatnsmagn. Það er gott ef ekki er of mikill snjór eftir veturinn því þá getur orðið of mikið í þeim fyrstu vikur veiðinnar. Núna var vatnsmagnið fínt í byrjun en það er orðið frekar mikið eftir rigningar síðustu vikna. Vesturdalsáin er styttri en þar sem stífla sem vatni er safnað í til miðlunar,“ segir Eyþór Bragi.

Smálaxagöngurnar skapa fjöldann

Hafrannsóknastofnun sendi í lok síðustu viku frá sér tilmæli til veiðifélaga og stangveiðifólks um að sýna hófsemi í veiði og sleppa sem flestum löxum aftur eftir veiði. Í frétt stofnunarinnar segir að nokkrar ástæður séu fyrir lítilli veiði í ár. Í ám á Norður- og Austurlandi hafi klakárgangurinn 2015 verið með minnsta sem leiddi sem lítils gönguseiðaárgagns 2017 þannig að smálaxagöngur 2018 hafi verið litlar og stórlaxar fáir í ár. Enn sé þó von á smálaxagöngum á þessum svæðum. Þá fari heimtur úr sjó almennt minnkandi við Atlantshaf og ekki ljóst hvað veldur.

Samkvæmt tölum frá Landssambandi veiðifélaga voru komnir 374 laxar á land úr Selá í gær og 232 úr Hofsá og Sunnudalsá. Í fyrra veiddust 1340 laxar í Selá og 697 í Hofsá og Sunnudalsá. Hofsáin hefur einkum verið þekkt fyrir stórlaxa. Nú er von á að löxunum fjölgi með göngu smálaxanna. „Hofsáin er síðsumará þannig að aðal smálaxagöngurnar eru eftir. Þær skapa fjöldann,“ segir Eyþór Bragi.

Á réttri leið eftir flóðin

Lífríki ánna er að ná sér eftir mikil flóð í leysingum í byrjun júní 2013 og aftur 2014. „Þá var óvenju mikill snjór í fjöllum og mikil hlýindi í júní þannig að dalirnir fóru hreinlega á flot. Menn hafa aldrei séð neitt þessu líkt. Flóðin rótuðu upp botni Hofsárinnar, eyðilagði hrygningu og skolaði yngstu seiðunum út. Þetta varð til þess að veiðin var mjög léleg 2015-17 en hún hefur verið að aukast bæði í fyrra og í ár,“ segir Eyþór.

Árið 2016 fór veiði í Hofsánni niður fyrir 500 laxa. Hún er að jafnaði um 12-1300 laxar og upp í 2000 þegar mest lætur. „Seláin fór ekki jafn illa út úr þessu. Sunnudalsáin lenti þokkalega í þessum skelli líka en hún lítur þokkalega út núna. Við höfum verið að vinna í seiðabúskap árinnar, það er mikið líf í henni og það virðist ætla að ganga nokkuð hratt að ná henni aftur á strik.“

Eyþór hefur líkt og fleiri áhyggjur af versnandi skilyrðum í sjónum. „Laxinn úr Hofsánni er gjarnan tvö ár í sjó. Ég held að árnar hér hefðu náð sér fyrr ef skilyrði í sjó hefðu verið betri. Þessi eiginleiki fisksins að vilja vera tvö ár í sjónum er eitthvað sem við viljum gjarnan halda í.“

Mynd úr safni.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.