Vatnajökulsþjóðgarður sameinaður öðrum íslenskum þjóðgörðum?

bruarjokull.jpgInnan umhverfisráðuneytisins er unnið að hugmyndum að sameiningu stjórnunar þjóðgarða og friðlýstra svæða á Íslandi í eina stofnun. Markmiðið er að efla og styrkja starfsemi þeirra. Varað hefur við að slíkar breytingar á stjórnun Vatnajökulsþjóðgarðs skapi neikvæðni heimamanna í garð stofnunarinnar.

 

Þetta kemur fram í greinargerð um breytta stjórnun umhverfisstofnana sem unnin var fyrir ráðuneytið fyrir skemmstu. Vinnan hófst með SVÓT-greiningum (Styrkleikar, Veikleikar, Ógnanir, Tækifæri) í sumar en greinargerðinni var dreift við hlutaðeigandi aðila í desember.

Í henni er lagt til að Vatnajökulsþjóðgarður, Þingvallaþjóðgarður og sá hluti Umhverfisstofnunar sem hefur umsjón með friðlýstum svæðum verði sameinuð í sérstaka stofnun sem heyri undir umhverfisráðuneytið. Þetta telst í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir: „Rekstur og uppbygging þjóðgarða og friðlýstra svæða verði tekin til endurskoðunar með það að markmiði að sameina stjórn þeirra ,styrkja stöðu þeirra og styðja við fjölbreytta atvinnuuppbyggingu um allt land.“

Þessar hugmyndir eru mikil breyting frá því fyrirkomulagi sem ríkir í dag. Íslensku þjóðgarðarnir í dag eru þrír og alls eru þrjár stofnanir og tvö ráðuneyti sem fara með stjórn þeirra. Vatnajökulsþjóðgarður er ríkisstofnun sem heyrir undir sérstaka stjórn og umhverfisráðuneytið. Stofnunin skiptist í skrifstofu, sem staðsett er í Reykjavík og fjögur rekstrarsvæði undir stjórn þjóðgarðsvarða. Ráðgefandi svæðisráð með sex fulltrúum, þar af þremur frá sveitarstjórnum á svæðinu, starfar á hverju svæði. Formaður hvers svæðisráðs á síðan sæti í sjö manna aðalstjórn þjóðgarðsins sem ræður framkvæmdastjórann.

Innan ráðuneytisins er unnið með greinargerð að breyttri skipan stofnananna. Forstjóri þjóðgarðsstofnunarinnar verður þannig skipaður beint af ráðherra. Í hverjum þjóðgarði starfi ráðgefandi þjóðgarðsráð. Gert er ráð fyrir að stjórnun friðlýstra svæða verið skipt upp í svæði og ráðgefandi umdæmisráð verði yfir hverju svæði. Vegna stærðar Vatnajökulsþjóðgarðs er gert ráð fyrir að þar starfi svæðisráð sem hafi ráðgefandi hlutverk gagnvart þjóðgarðsráði og stofnuninni.

Hlutverk ráðanna er meðal annars „almenn ráðgjöf um stefnu og starfsemi,“ ráðgjöf til stofnunarinnar við gerð verndaráætlunar og gera tillögur að ráðningu þjóðgarðsvarða.

Helstu rökin að baki sameiningunni eru talið þau að tækifæri felist til að efla og styrkja starfsemina. Ávinningur verði bæði fyrir umhverfisvernd og útivist og ferðaþjónustuna. Mikil fagleg og rekstrarleg samlegð sé fyrir hendi.

„Umtalsverðir samlegðarmöguleikar eru á milli Vatnajökulsþjóðgarðs, Þingvallaþjóðgarðs og þess hluta Umhverfisstofnunar Snæfellsjökulsþjóðgarðs og annarra friðlýstra svæða og kostir sameiningar og ótvíræðir,“ segir í greinargerðinni.

Möguleg hætta á miðstýringu er nefnd sem galli á nýju fyrirkomulagi í greinargerðinni. Við SVÓT greininguna, sem unnin var af stjórn og starfsmönnum garðsins í sumar, var sérstaklega varað við henni. Boðleiðir yrðu lengri, hætta á yfirmannaveldi, að aðalstarfsstöðin verði staðsett í Reykjavík. Allt þetta veiki áhrif landsbyggðar. Þá er einnig varað við að minni aðkoma heimamanna skapi neikvæðni í garð þjóðgarðsins. Bent á að meðal veikleika núverandi fyrirkomulags sé að stærsti hluti þjóðarinnar hafi ekkert um þjóðgarðinn að segja. Engin skilgreind starfsstöð eða gestastofa sé á höfuðborgarsvæðinu en með nýju stofnuninni skapist tækifæri fyrir hana.

Stuttar boðleiðir með stjórnun frá neðstu lögum upp í þau efstu, með virkri aðkomu heimamanna, er talin núverandi stjórnunarfyrirkomulagi til tekna. Í breytingatillögunum stendur til að varðveita aðkomu heimamanna með „virkri þátttöku þeirra“ í hinum ráðgefandi ráðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.