Orkumálinn 2024

Varnarmannvirki eiga að vernda svæðið næst Búðará

Litlar breytingar eru á áhættumati vegna ofanflóða á svæðinu næst Búðará á Seyðisfirði samkvæmt drögum að endurskoðuðu mati. Þær varnir sem byggðar hafa verið upp á svæðinu síðustu vikur virðast veita talsverða vörn.

Veðurstofa Íslands hefur frá skriðföllunum um miðjan desember unnið að endurskoðun hættumats fyrir Seyðisfjörð. Núgilandandi mat er frá árinu 2019 og byggir á miklum rannsóknum árin á undan.

Þær leiddu meðal annars í ljós þrjár stórar forsögulegar skriður úr firðinum sunnanverðum, tvær 1300 ára gamlar og eina 4500 ára, sem höfðu mikil áhrif á hættumatið. Vinnan að undanförnu hefur snúist um forsendur hættumatsins, svo sem auka áhættu vegna loftslagsbreytinga, nýrra sprungna eða óhlaupins efni, þiðnandi sífrera í Strandartindi og vanmats á skriðuhættu.

Hættumatið er unnið í áföngum. Í febrúar lá fyrir frumniðurstaða hættumats við Stöðvarlæk sem varð til þess að íbúabyggð á svæðinu var bönnuð. Verðmati á eignunum er lokið og var kynnt eigendum í lok síðustu viku. Björn Ingimarsson, bæjarstjóri, sagðist á íbúafundi í gær binda vonir við að hægt yrði að ganga frá kaupum þar fljótlega.

Breytingar enn eðlilegar

Í síðustu viku lá líka fyrir hættumat frá því svæði inn að Búðará, en skriðan skiptist ofan þeirra húsa sem stóðu næst ánni. Tómas Jóhannesson, fagstjóri frá ofanflóðadeild Veðurstofunnar, fór yfir niðurstöður matsins í gær.

Hann sagði að ekki væri ástæða til að breyta hættumatinu vegna lofslagsbreytinga. Sveiflur séu í úrkomusögu síðustu 110 ára og hlýrra veðurfar þýðir að úrkoma falli nú frekar sem regn en snjór á veturna sé það innan náttúrulegra breytinga. Ekki sé ástæða til að telja að loftslagsbreytingar síðustu áratugi né áframhald þeirra til forsendubreytinga. „Það eru ekki beinar vísbendingar um að við séum komin á það stig, það er frekar eftir 50 ár sem þetta fer að skipta máli.“

Reikna áhrif stórra skriða

Sérfræðingar Veðurstofunnar hafa undanfarnar vikur byggt upp tölvulíkön og keyrt þau til að kanna hvernig mismunandi stórar skriður breiðist yfir svæðið. Tómas fór yfir helstu niðurstöður þeirra líkindareikninga.

Stóra skriðan sem féll í desember var 60-70.000 rúmmetrar að stærð. Við hlið hennar eru sprungur í nokkrar áttir. Þannig afmarkar ein slík innan við þá stóru um 30.000 rúmmetra af efni sem hætta er að geti farið af stað. Sú skriða færi að mestu í Búðarána og ætti ekki að hafa áhrif á þau hús sem enn standa.

Nokkrar sprungur liggja frá skriðusárinu út undir Stöðvarlæk. Þar eru taldir vera 150.000 rúmmetrar af efni. Færi það allt af stað í einu færi það að mestu á það svæði sem varð undir í desember eða þar sem búseta hefur verið bönnuð. Sú skriða færi út undir frystihús Síldarvinnslunnar en náttúrulegar varnir, sem manngerðar, myndu sem fyrr verja húsin næst Búðaránni þótt tunga færi ofan í hana.

Öflug, náttúruleg vörn

Tómas sagði augljóst að hreyfing væri á sífrerasvæðinu, grjóturðir þar væru skýrt merki um það. Vitað sé um sífrerasvæði bæði hérlendis sem erlendis sem farið hafi af stað síðustu áratugi í hlýnandi veðri. Talið er að allt að 300.000 rúmmetrar af efni geti farið af stað úr Strandartindi, sem síðan yrðu að um 200.000 rúmmetra heildarskriðu. Það myndi breiða úr sér farvegi og sem fyrr yrðu húsin næst Búðaránni varin. „Hryggurinn í landinu á Múlasvæðinu er mjög áhrifaríkur til að koma í veg fyrir að efnið kastist yfir á húsinu,“ sagði Tómas.

Niðurstaða Veðurstofunnar er án allra varnarmannvirkja séu húsin í kringum húsið Múla að Hafnargötu 10 á hættusvæði C, en varnarmannvirkin dugi til að færa þau yfir á hættusvæði B. Breytingin frá eldra hættumati er því litið.

Tómas bætti við að lögfræðilegt álitamál væri hvernig matið yrði að lokum sett fram. Þá væri eftir að ganga frá endanlegri hönnun varnarmannvirkja sem geti haft áhrif á lokaniðurstöðuna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.