Varð að hætta í vinnunni vegna dagvistunarleysis

„Við komum Esjari syni okkar hvergi að. Ég fór í 40% vinnu sem ég gat svo ekki sinnt vegna barnsins, þannig að maðurinn minn réði sig í þrjár vinnur til þess að vega upp mitt tekjutap. Þar af leiðandi er hann allt að 12 tíma fjarri heimilinu á dag og hittir son sinn rétt áður en hann fer að sofa á kvöldin,“ segir Linda Sæberg, íbúi á Egilsstöðum um úrræðaleysi í dagvistunarmálum í bænum.


Á Facebook er lokaður hópur sem nefnist „Foreldrar sem fá ekki daggæslu fyrir börnin sín að loknu fæðingarorlofi á Egilsstöðum“, en hann spratt upp í kjölfar sambærilegs hóps sem nýverið var stofnaður var í Reykjavík. Hópunum er ætlað mynda öflugan þrýstihóp svo bilið milli fæðingarorlofs foreldra og inngöngu barns á almennan leikskóla verði brúað.

„Esjar varð eins árs í desember. Ég kláraði fæðingarorlofið mitt í september, en þar sem við ákváðum með stuttum fyrirvara að flytja aftur heim til Egilsstaða var ég ekki búin að sækja um dagmömmupláss með löngum fyrirvara. Þegar okkur báðum bauðst atvinna og íbúð á Egilsstöðum tókum við því fagnandi að flytja hingað og komast úr höfuðborginni, þar sem við vorum búin að vera frá því að við vorum 18 ára. Við sáum fyrir okkur auðveldara líf – að komast úr æsingnum og því dýra umhverfi sem höfuðborgin er. Við vissum að þetta skref hefði í för með sér breytingu á þjónustustigi, en við bjuggumst ekki við þeirri takmörkuðu þjónustu sem hér er fyrir barnafólk og öllum lokuðu dyrunum sem við lentum á,“ segir Linda. 


Kemst ekki í dagvistun fyrr en 18 mánaða

„Esjar eru virkur og lifandi ungur drengur sem hefur mikla þörf á örvun og leik við önnur börn. Hann ljómar allur upp þegar við hittum önnur börn og finnst ótrúlega skemmtilegt að leika við aðra. Hann tekur einungis einn stuttann lúr á dag og sækir mjög mikið í mig. Ég réð því ekki lengur við þessa vinnu sem ég hafði ráðið mig í þar sem ég náði hvorki að sinna þörfum hans né vinnunni vel sem skapaði mikla vanlíðan og innri togstreitu – þegar ég fór að sofa á kvöldin fannst mér ég hafa brugðist Esjari, yfirmanni mínum og sjálfri mér. Um áramótin þegar ég hafði fengið lokasvar um að hann kæmist ekki inn til dagforeldra og ekki inn á leikskóla fyrr en eftir sumarfrí, þegar hann er orðinn rúmlega 18 mánaða, var því ekkert annað í stöðunni en að setja þarfir drengsins í forgang og hætta í vinnunni,“ segir Linda.

„Við höfum heyrt af því að litlu bæjarfélögin um allt land séu að setja allt í gang til að stækka og byggja við til að mæta þeirri fjölgun íbúa sem á sér stað. Bæjarfélög sem taka því fagnandi að loksins sæki barnafjölskyldur í að koma aftur heim og auki þjónustustig sitt til að halda í þessa eftirspurn, það erum jú við sem komum til með að halda samfélaginu gangandi í framtíðinni.“ 

Vandinn ekki meiri í ár en áður

Helga Guðmundsdóttir, fræðslustjóri Fljótsdalshéraðs, segir nú séu 236 börn í leikskólum sveitarfélagsins, en sveitarfélagið starfrækir tvo leikskóla í þéttbýlinu auk leikskóladeildar við Brúarásskóla.

„Við fullsetjum skólana að hausti og fyllum svo auðvitað í skörð ef einhver verða yfir vetrartímann. Fræðslunefnd hefur kallað eftir að það verð brugðist við aukinni þörf á leikskólarýmum og nefndin setti viðbyggingu við leiksskólans Hádegishöfði í Fellabæ í forgang við óskir um framkvæmdir á fræðslusviði á næstu árum, en þar liggur deiliskipulag og teikningar af viðbyggingu fyrir.“

Helga segir stærð árgangana á Héraði mjög mismunandi. „Það hafa verið talsverðar sveiflur að undanförnu, allt frá um fjörutíu upp í rúmlega sextíu börn í árgangi og það hefur auðvitað áhrif á skipulag leikskólamála. Við höfum undanfarin ár tekið inn þau börn að hausti sem verða árs gömul að vori, en það er á pari eða heldur betra en þau sveitarfélög sem við erum að miða okkur við.

Stefna sveitarfélagins hefur verið að leitast við að taka inn þau börn að hausti sem verða ársgömul fyrir 1. september það ár, en það hefur ekki alltaf gengið eftir vegna mismunandi stærðar árganga. Það er ekkert sem bendir til að vandinn í ár sé meiri en hann hefur verið, en það eru ákveðin teikn á lofti sem benda til þess að ungu fólki sé að fjölga á svæðinu og við verðum að búa okkur undir það.“ 

Auglýsingar skila engu

Helga segir að reynt hafi verið að efla dagforeldrakerfið, m.a. með hækkun á niðurgreiðslum, en það hafi ekki gengið sem skyldi. „Við erum með fjóra dagforeldra starfandi en það er ekki nóg. Við höfum auglýst en það hefur engu skilað, því miður.“ 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar