Varað við hvassviðri í kvöld og á morgun

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Austfirði vegna norðvestan hvassviðris með kvöldinu. Von er á talsverðri rigningu í dag sem hefur áhrif á hátíðahöld þjóðhátíðardagsins. Aftur birtir til á sunnudag.

Vegna rigningarspárinnar hafa flestir skipuleggjendur viðburða brugðist við með að færa dagskrá sína inn og í einhverjum tilfellum breyta henni. Upplýsingar um það eru á miðlum sveitarfélaga.

Gula viðvörunin tekur gildi klukkan ellefu í kvöld og gildir til sex síðdegis á morgun. Á þessum tíma er búist með norðvestan 13-20 m/s með rigningu á köflum í fyrramálið. Þetta skapar varasamar aðstæður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Rétt er að taka fram að viðvaranir eru einnig í gildi á Suðaustur- og Suðurlandi vegna hvassviðris. Þá bendir Veðurstofan á að víðar á landinu verði stífur vindur, til að mynda 8-15 m/s á Austurlandi að Glettingi.

Veðrið gengur niður seinni partinn á morgun og á sunnudag er spáð hægri suðvestanátt, sólskini og yfir 20 stiga hita eystra. 

Mynd: Ómar Bogason


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.