Orkumálinn 2024

Varað við asahláku á morgun og hinn

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun vegna asahláku á Austfjörðum og Austurlandi á föstudag og laugardag. Spáð er hlýindum, vindi og rigningu.

Á Austfjörðum tekur viðvörunin gildi á hádegi á morgun, föstudag og gildir til klukkan sex síðdegis á laugardag. Á Austurlandi gengur viðvörunin tveimur tímum síðar í gildi, 14:00 á föstudag og lýkur klukkustund fyrr eða 17:00 á laugardag.

Veðurlýsingin er annars áþekk fyrir bæði spásvæði, sunnan 10-18 m/s, hiti 5-12 stig og rigning, stundum talsverð. Svo virðist sem rigningin geti orðið heldur meiri á Austfjörðum.

Fyrri partinn á morgun, áður en hlýnar, má búast við talsverðum vindi og snjókomu en síðan verður gríðarleg umbreyting.

Á meðan viðvaranirnar gilda má búast við talsverðu afrennsli vegna úrkomu og snjóbráðnunar sem og vexti í ám og lækjum. Ár, sem margar eru í klaka, geta rutt sig. Þess vegna er fólk beðið um að sýna aðgát. Líklegt er að flughált verði á blautum klaka.

Fólk er hvatt til að huga að niðurföllum til að vatn komist leiðar sinnar þannig ekki verði tjón af því.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.