Varaafl úr Neskaupstað flutt til Úkraínu

Unnið er að því að taka niður varaaflstöð sem verið hefur til staðar fyrir Neskaupstað. Stöðin er orðin gömul auk þess sem hún öflugri tengingar í staðarins hafa dregið úr þörfinni á henni. Til stendur að senda nokkrar af vélum hennar til Úkraínu.

Þetta kemur fram í svari Rarik við fyrirspurn Austurfréttar í kjölfar gagnrýni íbúa í Neskaupstað sem óttast að með þessu verið dregið úr raforkuöruggi í bænum, ekki síst í kjölfar ummæla bæjarstjóra Fjarðabyggðar að þörf væri á fleiri varaaflstöðvum í kjölfar rafmagnsleysisins á Reyðarfirði um áramótin.

Í svari Rarik segir að varaflstöðin í Neskaupstað hafi verið mikilvæg meðan þangað lá aðeins ein ein rafmagnslína úr meginflutningskerfinu. Árið 1985 var lögð 66kV loftlína yfir Oddsskarð og því útsett fyrir truflunum.

Jarðstrengur breytir stöðunni

Árið 2021 var hins vegar tekinn í notkun nýr jarðstrengur um ný Norðfjarðargöng. Rafmagn er því tryggt til Norðfjarðar um tvær aðskildar flutningslínur, auk tveggja spenna sem hvor um sig anni raforkuþörfinni á svæðinu. Rarik og Landsnet, sem rekur flutningskerfið, telja því ekki lengur sömu þörf á varaafli fyrir Norðfjörð.

Síðustu ár hefur varaaflstöðin ráðið við mest alla almenna orkunotkun í Neskaupstað, ef á hefur þurft að halda, utan ótryggrar orku sem meðal annars er notuð í bræðsluna. Í svarinu segir að varaaflstöðin hafi verið komin á tíma, elstu vélarnar orðnar yfir 40 ára gamlar. Kostnaður við endurnýjun nemi hundruðum milljóna króna.

Auk þess séu sáralitlar líkur á að það nýtist nema ef báðar tengingar bresta í einu eða í þeim tilfellum sem allt flutningskerfið á Austurlandi dettur út. Það sé afar sjaldgæft og standi yfirleitt stutt.

Meiri þörf á stuðningi annars staðar

Að öllu þessu sögðu telji Rarik það ekki bestu leiðina til að tryggja afhendingaröryggi í raforkukerfinu á Austurlandi að fjárfesta í endurbyggingu varaaflstöðvarinnar í Neskaupstað. Önnur byggðarlög hafi ekki jafn öfluga afhendingu, til dæmis ekki Reyðarfjörður. Þá séu mikilvægir staðir, á borð við sjúkrahúsið, með eigið varaafl.

Til stendur að senda 2-3 rafvélar, sem staðsettar hafa verið í Neskaupstað og ekki notaðar síðustu ár, til Úkraínu. Vélarnar eru orðnar það gamlar að þær verða ekki settar upp í annarri varaaflstöð hérlendis. Með þessu sé Rarik að styðja íslensk stjórnvöld í aðstoð þeirra við Úkraínu, sem glímir við mikla erfiðleika í raforkumálum vegna innrásar Rússlandshers.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.