Var Skriðdalsvegurinn hrossakaup á lokasprettinum?

Þingmaður Miðflokksins segir furðulegt hvernig hálfum milljarði hafi verið bætt við til framkvæmda á veginum í botni Skriðdals milli umræðna um fjárlög ársins 2018 þegar brýnni verkefni á Austurlandi bíði afgreiðslu.

Þetta eru orð Bergþórs Ólasonar, þingmanns flokksins í Norðvesturkjördæmi, sem hann lét fjalla í umræðum um störf þingsins á Alþingi í miðri viku.

Eins og Austurfrétt hefur greint frá var bætt við 480 milljónum til að byggja upp veginn í botni Skriðdals milli fyrstu og annarrar umræðu fjárlaga.

Því var meðal annars fagnað af sveitastjórnarfólki á Fljótsdalshéraði sem lengi hafa barist fyrir uppbyggingu vegarins og töldu fjárveitinguna eðlilegt skref í framhaldi af orðum fyrrum samgönguráðherra, Jóns Gunnarssonar, sem tilkynnti að vegurinn yfir Öxi færi í forgang um leið og hann ákvað að færa vegnúmerið 1 af Breiðdalsheiði. Eins sendi stjórn SSA frá sér ályktun þar sem fjármögnuninni var fagnað.

Þetta gagnrýndi Bergþór, sem einnig er formaður umhverfis- og samgöngunefndar þingsins, hins vegar með þeim orðum að á milli umræðna um fjárlög hefði „fallið af himnum ofan“ fjármagn í veginn í Skriðdal.

„Síðan við hittumst síðast þá hafa aðilar að austan verið í sambandi. Þetta verk ku hvergi nærri vera í þeim forgangi sem sú aðgerð að setja hálfan milljarð í án nokkurrar umræðu gefur tilefni til að ætla.

Þótt það sé auðvitað ekki spurning sett fram inn í þetta samhengi hér, þá væri áhugavert að vita með hvaða hætti hálfs milljarðs framkvæmd við vegalagningu um Skriðdal kom inn í fjárlög þegar svo miklu, miklu brýnni verkefni sem kallað er eftir á Austurlandi bíða hanteringar og afgreiðslu.

Hvað kom í staðinn? Voru þetta bara einhver hrossakaup á lokasprettinum?“

Ekki voru veitt andsvör við spurningum Bergþórs við umræðuna og fjárlög afgreidd með framlaginu í veginn um Skriðdal.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar