Orkumálinn 2024

Var Skriðdalsvegurinn hrossakaup á lokasprettinum?

Þingmaður Miðflokksins segir furðulegt hvernig hálfum milljarði hafi verið bætt við til framkvæmda á veginum í botni Skriðdals milli umræðna um fjárlög ársins 2018 þegar brýnni verkefni á Austurlandi bíði afgreiðslu.

Þetta eru orð Bergþórs Ólasonar, þingmanns flokksins í Norðvesturkjördæmi, sem hann lét fjalla í umræðum um störf þingsins á Alþingi í miðri viku.

Eins og Austurfrétt hefur greint frá var bætt við 480 milljónum til að byggja upp veginn í botni Skriðdals milli fyrstu og annarrar umræðu fjárlaga.

Því var meðal annars fagnað af sveitastjórnarfólki á Fljótsdalshéraði sem lengi hafa barist fyrir uppbyggingu vegarins og töldu fjárveitinguna eðlilegt skref í framhaldi af orðum fyrrum samgönguráðherra, Jóns Gunnarssonar, sem tilkynnti að vegurinn yfir Öxi færi í forgang um leið og hann ákvað að færa vegnúmerið 1 af Breiðdalsheiði. Eins sendi stjórn SSA frá sér ályktun þar sem fjármögnuninni var fagnað.

Þetta gagnrýndi Bergþór, sem einnig er formaður umhverfis- og samgöngunefndar þingsins, hins vegar með þeim orðum að á milli umræðna um fjárlög hefði „fallið af himnum ofan“ fjármagn í veginn í Skriðdal.

„Síðan við hittumst síðast þá hafa aðilar að austan verið í sambandi. Þetta verk ku hvergi nærri vera í þeim forgangi sem sú aðgerð að setja hálfan milljarð í án nokkurrar umræðu gefur tilefni til að ætla.

Þótt það sé auðvitað ekki spurning sett fram inn í þetta samhengi hér, þá væri áhugavert að vita með hvaða hætti hálfs milljarðs framkvæmd við vegalagningu um Skriðdal kom inn í fjárlög þegar svo miklu, miklu brýnni verkefni sem kallað er eftir á Austurlandi bíða hanteringar og afgreiðslu.

Hvað kom í staðinn? Voru þetta bara einhver hrossakaup á lokasprettinum?“

Ekki voru veitt andsvör við spurningum Bergþórs við umræðuna og fjárlög afgreidd með framlaginu í veginn um Skriðdal.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.