Vanhæfur dómnefndarmaður: Samið upp á nýtt um hjúkrunarheimili á Eskifirði

ImageSamið verður við Studio-Strik sem lenti í öðru sæti í hönnunarsamkeppni um nýtt hjúkrunarheimili á Eskfirði. Vinningstillagan var dæmd úr leik vegna vanhæfis eins dómnefndarmannsins. Studio-Strik kærði niðurstöðu samkeppninnar til kærunefndar útboðsmála sem úrskurðaði fyrirtækinu í hag.

 

Arkitektastofan Einrúm átti þá tillögu sem var valin hlutskörpust. Eftir að nafnleynd var aflétt varð ljóst að Einrúm hafði unnið með Einari Ólasyni, arkitekti og dómnefndarmanni, að ýmsum verkefnum í gegnum tíðina, nú seinast að nýjum leikskóla í Garðabæ.

Forsvarsmenn Studio-Striks töldu að vegna viðskiptatengsla hans mætti draga óhlutdrægni hans í efa. Einrúm mótmælti rökstuðningi Studio-Striks, meðal annars á þeim forsendum að nafnleynd hefði ríkt í keppninni og fjórir af fimm nefndarmönnum verið sammála um vinningstillöguna.

Í úrskurðinum segir að með réttu megi draga óhlutdrægni Einars í efa. „Eru líkur á því að hann hafi getað greint tillögu samstarfsaðila sinna frá öðrum keppnistillögum. Á það er jafnframt að líta að nefndarmaðurinn var annar tveggja arkitekta í dómnefndinni og má ætla að röksemdir hans varðandi val hafi vegið þungt.“

Þá hafi hann ekki, eftir að nafnleyndinni var aflétt, upplýst aðra dómnefndarmenn „um þessi miklu og löngu viðskiptatengsl milli hans og vinningshafanna.“

Kærunefndin felldi því samning Framkvæmdasýslu ríkisins við Einrúm úr gildi og gerði Einrúmi að greiða Studio-Striki 300 þúsund krónur í málskostnað. Nefndin tók ekki afstöðu til skaðabótakröfu Studio-Striks.

Á fundi bæjarráðs Fjarðabyggðar fyrir skemmstu var, að höfðu samráði við félags- og tryggingamálaráðuneytið og Framkvæmdasýsluna, ákveðið að ganga til samninga við Studio-Strik um hönnunina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.