Vandræði með utankjörfundaratkvæði á höfuðborgarsvæðinu

Búið á að vera að greiða úr misskilningi sem varð til þess að kjósendum í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi gátu ekki kosið utankjörfundar á höfuðborgarsvæðinu. Kjósendur eru sjálfir ábyrgir fyrir að koma atkvæði sínu til skila.

Kosið er utankjörfundar hjá sýslumönnum um allt land auk hreppsskrifstofanna á Borgarfirði og Djúpavogi og loks bókasafninu á Egilsstöðum.

Austurfrétt hefur heimildir fyrir því að kjósendum sem farið hafi til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu hafi verið vísað frá þar sem starfsmenn þar hafi ekki kannast við kosningar austur á landi, hvað þá utankjörfundaratkvæðagreiðslu.

Róbert Ragnarsson, starfsmaður undirbúningsstjórnar sameiningarinnar, staðfesti í samtali við Austurfrétt að slík tilvik hafi komið upp. Haft hafi verið samband við dómsmálaráðuneytið í gær sem hafi áréttað atkvæðagreiðsluna við sýslumannsembættin.

Þá er það svo í þessum kosningum að kjósendur bera sjálfir ábyrgð á að koma atkvæði sínu á áfangastað, sýslumannsembættin sjá ekki um það líkt og í Alþingiskosningum. Þær upplýsingar fengust hjá yfirkjörstjórn sveitarfélagsins í morgun að best sé að stíla atkvæðið á yfirmann kjörstjórnar, Bjarna Björgvinsson, sem hafa mun aðsetur í Menntaskólanum á Egilsstöðum.

Þá er mælt með að þeir sem kjósa utankjörfundar annað hvort finni far fyrir atkvæði sín eða komi þeim austur með flugi frekar en nýta póstþjónustu. Ekki er tryggt að atkvæði sent með Íslandspósti verði komið austur fyrir laugardag. Að auki taka stjórnmálaflokkarnir eða framboðin oft að sér að koma atkvæðum á áfangastað.

Fleiri athugasemdir hafa verið gerðar við utankjörfundaratkvæðagreiðsluna, sem hófst 25. júlí. Þannig hafa kjósendur komið að lokuðum dyrum í útibúum sýslumannsins á Austurlandi en mannekla hefur hrjáð embættið undanfarin misseri.

Við venjulegar kosningar eru til staðar stimplar með listabókstöfum en vegna sóttvarna er ekki svo nú. Þess í stað fá kjósendur blöð sem þeir skrifa bókstafina á. Ekki hafa þó alls staðar legið frammi staðfestar upplýsingar um hvaða listabókstafir eru í vali.

Einnig er hægt að kjósa utankjörfundar í heimastjórnakosningum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.