Vandræði á Fjarðarheiði í gærkvöldi

Bílar á leið yfir Fjarðarheiði í gærkvöldi lentu í vandræðum vegna vetrarfærðar sem þar skapaðist. Björgunarsveitir aðstoðuðu fólk til byggða.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörgu frá í gær og lögreglunni á Austurlandi frá í morgun.

Þar segir að bílarnir hafi ekki komist lönd né strönd vegna ófærðar, bæði hafi orðið hált og blint á heiðinni sem voru vonlausar aðstæður fyrir bíla á sumardekkjum. Veginum yfir Fjarðarheiði var því lokað en hann opnaður aftur um hálf átta í morgun. Þar er enn hált.

Að minnsta kosti einn árekstur varð og einhverja bíla varð að skilja eftir þegar fólk var flutt til byggða. Þeir flæktust síðan fyrir snjómoksturstækjum. Húsbíll þveraði veginn um tíma áður en hann fauk út af.

Gul viðvörun tekur gildi fyrir Austurland að Glettingi nú klukkan tíu og gildir til níu í kvöld. Spáð er slyddu á láglendi en snjókomu eða skafrenningi til heiða með vindhraða upp á 8-15 metra. Varasamar aðstæður geta skapast, einkum á fjallvegum.

Hálkublettir eru á Fagradal, Jökuldal og Vopnafjarðarheiði en hált á Möðrudalsöræfum og þæfingur á Mjóafjarðarheiði. Aðrar leiðir eru skráðar greiðfærar samkvæmt Vegagerðinni.

Af Fjarðarheiði í gær. Mynd: Landsbjörg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.