Orkumálinn 2024

Vallanesbændur sýknaðir í Landsrétti

Landsréttur telur að stjórnendur Móður Jarðar, sem framleiðir lífrænar landbúnaðarvörur í Vallanesi á Fljótsdalshéraði, hafi ekki brotið lög um atvinnuréttindi útlendinga með að hafa nýtt sér vinnu erlendra sjálfboðaliða.

Málið fór af stað sumarið 2016 eftir heimsókn fulltrúa frá AFLi Starfsgreinafélagi, Vinnumálastofnun og Ríkisskattstjóra í Vallanes. Þar voru gerðar athugasemdir við störf sjálfboðaliða frá samtökunum WWOOF á búinu.

Lögregla var kölluð til og eftir rannsókn hennar var gefin út ákæra á hendur stjórnendum fyrirtækisins fyrir að hafa haft þar fjóra bandaríska sjálfboðaliða í vinnu án þess að þeir hefðu tilskilin atvinnu- og dvalarleyfi.

Héraðsdómur Austurlands kvað upp sýknudóm í málinu í júní í fyrra. Forsendur hans væru að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að hnekkja fullyrðingum, eða hrekja gögn, forsvarsmanna fyrirtækisins ræktunin væri fullmönnuð án sjálfboðaliðanna, dvöl að frumkvæði þeirra sjálfra og á þeim engin vinnuskylda. Því væri ekki sannað að stofnast hefði til vinnusambands.

Ákæruvaldið áfrýjaði málinu til Landsréttar sem á föstudag staðfesti sýknudóminn. Ekki hafi verið sannað að Móðir Jörð hefði ráðið sjálfboðaliðanna til starfa í þeim skilningi að til vinnuréttarsambands hefði stofnast. Þá væri ekki séð að stjórnendur fyrirtækisins hefðu af ásetningi eða stórfelldu gáleysi nýtt sér starfskrafta fólksins með þeim hætti sem vísað væri til í þeim lögum sem ákært var eftir.

Ríkið var að auki dæmt til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, ásamt launum verjanda, alls rúmar 840 þúsund krónur. Áður hafði ríkið verið dæmt til að greiða málskostnaði í héraði upp á 3,3 milljónir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.