Orkumálinn 2024

Valdamiklir menn er æsispennandi glæpasagnabálkur

„Sagan tengist Austurlandi aðeins og þá sérstaklega síðasta bókin,“ segir rithöfundurinn Jón Pálsson á Seyðisfirði, en þriðja og síðasta bók hans í lokahluta glæpasagnaþríleiksins Valdamiklir menn kom út á dögunum.


Bókin ber heitið Valdamiklir menn: Þriðja morðið en fyrri bækurnar, Þriðja málið og Þriðji maðurinn, komu út 2016 og 2017. Þriðja morðið er fjórða skáldsaga Jóns Pálssonar en hann hefur einnig sent frá sér þrjár ljóðabækur. Höfundaútgáfan gefur út.

Í fréttatilkynningu segir; „Sem fyrr er það rannsóknarlögreglumaðurinn Þórhallur sem glímir við flókið mál þar sem alþjóðlegar glæpaklíkur, og eiturlyfjasmygl koma við sögu, en glæpastarfsemin teygir einnig anga sína inn í fjármálaheiminn og valdastofnanir innanlands, jafnvel inn í raðir sjálfrar lögreglunnar.

Yfirvöld virðast telja málið upplýst en Þórhallur er ekki sannfærður. Nú verður hann að gera upp við sig hvort hann á að sætta sig við að málinu sé lokið eða leggja allt í sölurnar til að koma lögum yfir glæpamennina. Tíminn er naumur og þegar aðstæður breytast skyndilega virðast öll sund lokuð.

Þríleikurinn Valdamiklir menn er æsispennandi glæpasagnabálkur sem er um leið vægðarlaus afhjúpun á myrkviðum valds og spillingar í íslensku samfélagi.“

„Það verður kannski ekki glæpasaga næst“
„Þessar þrjár bækur eru í raun sama sagan, en í lok fyrstu bókar kemst lesandinn að því að málið tengsit inn í lögregluna. Annarri bókinni lýkur svo með því að lesandinn fær að vita að málið tengist inn í stjórnmálin og málið leysist svo í þeirri þriðju. Þessari sögu er því hér með lokið og það er mikill léttir,“ segir Jón sem þó segist hvergi nærri hættur að skrifa. „Nei, alls ekki, en það verður kannski ekki glæpasaga næst.“

Jón segist hafa fengið mjög góð viðbrögð við fyrri tveimur bókunum, en nú eru þær á tilboði og hægt að fá þríleikinn allan á undir sjö þúsund krónum.



Valdamiklir menn 1200

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.