Orkumálinn 2024

Væg gul viðvörun í kvöld og hláka í nótt

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Austfirði vegna snjókomu og hvassviðri í kvöld. Í nótt tekur síðan við rigning þegar hlýnar í veðri sem líklegt er að framkalli hláku.

Viðvörunin gildir frá klukkan átta í kvöld til eitt í nótt. Spáð er 13-18 m/s með talsverðri snjókomu og skafrenningi til fjalla sem veldur lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er búist við að úrkomubakkinn sem kemur upp að landinu fari nokkuð austar en gert var ráð fyrir í fyrstu og því verði áhrifin væntanlega minni en reiknað var með. Allur sé hins vegar varinn góður.

Í nótt og fyrramálið er spáð hlýnandi veðri og rigningu á Austfjörðum. Þegar slíkt fer saman við mikinn snjó sem kominn er á svæðið geta skapast skilyrði fyrir mikla hláku.

Óli Þór Árnason, veðurfræðingur, telur að hún verði takmörkuð þótt rétt fyrir húseigendur að tryggja greiða leið vatns, svo sem með að brjóta frá niðurföllum, ella finni vatnið sína eigin leið.

Hlýindin verða skammvinn, aðeins í nótt og rétt í fyrramálið og rigningin sömuleiðis. Helst er von á rigningu og hitatölum syðst á Austfjörðum. Úrkoman nær vart norður fyrir Fáskrúðsfjörð fyrr en undir morgunn en þá byrjar að kólna aftur. Fyrir hádegi verður hitinn kominn niður í 1-2 gráður.

Þar sem hitinn fer ekki nema í 4-5 gráður á láglendi í nótt mun hlákan vart ná nema upp í 350-400 metra hæð og fyrir ofan 200-250 metra mun úrkoman falla sem slydda. Snjó tekur því vart upp nema á láglendi.

Síðdegis frystir síðan aftur og má því búast við að allhált verði á svæðinu. Aðra nótt og á miðvikudag má búast við að hlýni aðeins aftur en mun minna en í nótt.

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.