Orkumálinn 2024

VA þarf að keppa aftur gegn MÍ

RÚV hefur ákveðið að viðureign Verkmenntaskóla Austurlands og Menntaskólans á Ísafirði í annarri umferð spurningakeppninnar Gettu betur verði endurtekin vegna tæknilegra mistaka. VA hafði betur er liðin mættust í gærkvöldi og taldi sig hafa tryggt sér sæti í sjónvarpshluta keppninnar.

Viðureign skólanna var sú fyrsta af þremur í gærkvöldi. VA vann 21-19 eftir að hafa verið með nokkuð örugga forustu lungann úr keppninni.

Í tilkynningu RÚV segir að eftir að öllum keppnum kvöldsins lauk hafi komið í ljós að VA hefði fengið lengri tíma í fyrsta hluta keppninnar, hraðaspurningunum. Þær eiga að vera 90 sekúndur en við skoðun kom í ljós að VA hafði fengið 17 sekúndur í viðbót.

Á þeim tíma voru bornar upp sjö spurningar í viðbót og náði VA sér í þrjú dýrmæt stig þar. Í tilkynningu RÚV segir að það sem aukaspurningarnar hafi haft áhrif á úrslit keppninnar hafi verið ákveðið að endurtaka hana.

„Við hörmum þessi mistök og viljum biðja alla hlutaðeigandi innilega afsökunar. Við þessar aðstæður þykir okkur hins vegar hreinlegast og sanngjarnast að endurtaka viðureignina,“ er haft eftir Elínu Sveinsdóttur, umsjónarmanni keppninnar.

Í reglum keppninnar, sem byggir á samkomulagi RÚV og þeirra skóla sem taka þátt, er ekki að finna nein ákvæði um hvað skuli gera ef upp kemur atvik eins og í gær. Þar er aðeins grein um að dómari hafi endanlegt úrskurðarvald um hvort svör teljist fullnægjandi og úrslitum verði því ekki breytt eftir á. Utan um keppnina heldur síðan stýrihópur, skipaður fulltrúum skóla og RÚV, sem meðal annars fylgist með að keppnirnar fari fram eftir settum reglum.

Tímalengdin var ekki eina tæknilega vandamálið sem upp komið í gær, en nokkur reikistefna varð eftir að í ljós kom að sama hljóð barst úr bjöllum beggja liða.

Í tilkynningu RÚV segir að ekki hafi verið ákveðið hvenær liðin mætist á ný en það verði gert í samráði við skólana.

Stjórnendur VA vildu ekki tjá sig um málið að svo stöddu þegar Austurfrétt leitaði eftir því og sögðust bíða nánari upplýsinga frá RÚV.

Lið VA: Birna Marín Viðarsdóttir, Guðmundur Kristinn Þorsteinsson og Hlynur Karlsson. Mynd: VA

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.