Úr þremur vörum í sjö á ári

Matvælafyrirtækið LeFever sauce á Djúpavogi hefur síðastliðið ár aukið vöruúrval sitt úr þremur sósum í fimm sósur, sinnep og pikklað chili. Fyrirtækið hefur verið leiðandi í að byggja upp menningu í kringum sterkar sósur hérlendis.

„Við seldum fyrstu sósuna okkar, Beru, á jólamarkaði Hörpu árið 2018 og árið eftir kemur Dreki. Í fyrra kom síðan þriðja sósan, Alvör. Í janúar bættist Jaxl við og svo í sumar komum við með Skass, sinnep og pikklað chili.

Þar færum við okkur yfir í almennari vöru, matvörur með eldpapriku (chili). Við erum með pikklað chili sem ótrúlegt en satt er mildasta varan okkar. Fimm ára sonur okkar borðar það upp úr krukkunni.

Síðan kom fyrsta afleidda varan, sinnep sem varð til fyrir slysni. Sósan Dreki er gerjuð og við framleiðslu hennar verður til bragðmikill kryddvökvi sem okkur fannst miður að þurfa að farga. Óðni datt til hugar að hella vökvanum yfir sinnepsfræ og þá varð sinnepið okkar til,“ segir Greta Mjöll Samúelsdóttir, sem rekur fyrirtækið ásamt manni sínum, William Óðni Lefever, í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Menning í kringum kröftugar sósur

Sósurnar sem LeFever framleiðir eru svokallaðar „Hot sauce“ sósur. Greta Mjöll útskýrir að þeim hafi ekki lánast að finna íslenskt orð til að lýsa þeim, í raun sé þetta hugtak sem lýsi alþjóðlegu fyrirbrigði eins og „salsa“ er notað um sósur sem eigi uppruna sinn í Mið- og Suður-Ameríku. „Hot sauce“ eru sterkar kryddsósur sem byggja á eldpaprikunni.

Greta Mjöll og Óðinn kynntust sósunum þegar þau bjuggu í Bandaríkjunum en söknuðu þeirra þegar heim var komið og fóru því að búa til sínar eigin. Bera varð síðan fyrsta íslenska sósan af þessari gerð.

„Menningin á bakvið hot sauce snýst oft um að ögra, að búa til eins sterka sósu og hægt er því áhugamál sumra er að borða eins sterkar sósur og hægt er, það er jafnvel keppt í því. Vandamálið í okkar huga er að margar þessar sterkustu sósa eru ekki bragðgóðar, að mínu mati jafnvel hreinlega óætar. Okkar markmið hefur hins vegar alltaf verið að sósurnar okkar séu líka góðar á bragðið. Til dæmis heyrum við það um Skass, sem í hverri flösku eru þrjú stykki af sterkustu eldpaprikunni „carolina reaper“, að hún sé samt bragðgóð.

Algengasta spurningin sem við fáum á íslensku markaði er hvernig eigi að nota sósurnar. Okkar slagorð er: „Skvettist á allt.“ Í keppnunum eru oft notaðir kjúklingavængir en í raun passar allt sem inniheldur fitu og kolvetni við bragðsterkan mat. Ég nota sósurnar mest á eggin á morgnana, pottrétti og fisk. Ég hef ekki prófað þær á ís eða hafragraut en flest annað. Við höfum fengið sendar myndir frá fólki sem hefur notað þær á slátur eða svið og segir það æðislegt.“

Forsendur til að rækta eldpaprikur hérlendis

Greta Mjöll segir þau eftir bestu getu hafa reynt að nota íslenskt hráefni í sósurnar. Til þessa hafa flestar eldpaprikurnar komið erlendis frá en forsendurnar ræktunar hérlendis kunna að vera styrkjast með tilkomu fleiri aðila í sósugerðinni.

„Við viljum gjarnan nota íslenska eldpapriku en hingað til hafa ekki endilega verið forsendur fyrir bændur til að taka eitt gróðurhúsanna sinna undir hana. Með fleiri framleiðendum er það kannski að breytast. Við áttum góð samtöl við íslenska grænmetisbændur á Landbúnaðarsýningunni í síðasta mánuði og við vonumst til að innan árs verði mest öll eldpaprikan sem við notum íslensk.“

Óðinn og Greta með börn sín og sósurnar í lautarferð. Mynd: LeFever sauce co.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.