Orkumálinn 2024

Upplýsingar frá flygildi á Egilsstöðum nýtast til að auka öryggi sjófarenda

Reynsla af notkun flygildis, sem staðsett er á Egilsstaðaflugvelli, við eftirlit á hafi mun gefa gleggri mynd um hvernig nýta megi slík tæki í framtíðinni til auka öryggi sjófarenda og framfylgja lögum. Framkvæmdastjóri Evrópsku siglingaöryggisstofnunarinnar (EMSA) segir reynsluna af flygildinu eiga eftir að nýtast víða í Evrópu.

„Ég er mjög ánægð með að vera hér, bæði til að heimsækja íslensk siglingamálayfirvöld og sjá hvernig ný þjónusta með flygildum, sem við bjóðum þeim ríkjum sem eiga aðild að EMSA upp á, virkar í raun,“ segir Maja Markovčić Kostelac.

Kostelac var á Egilsstöðum í gær til að kynna sér reynsluna af flygildi sem staðsett hefur verið þar frá miðjum apríl. Flygildið er í umsjá Landhelgisgæslunnar og hefur verið nýtt til eftirlits á hafsvæðinu í kringum Ísland.

„Við fengum beiðni frá Landhelgisgæslunni um stuðning við eftirlitið. Þjónustan sem við veitum er metin á 3,5 milljónir evra [tæpan hálfan milljarð króna],“ segir Kostelac.

Flygildið fór fyrst á loft eystra um miðjan apríl og á samkvæmt samningunum að vera hér í þrjá mánuði, eða fram í miðjan júlí. „Ef þörf er á skoðum við möguleikann á að framlengja þann tíma.“

Greina útblástur skipa

Víðar um Evrópu er um þessar mundir verið að gera tilraunir með flygildaþjónustu EMSA. Kostelac segir flygildin nýtast til að sinna eftirliti á sjó í samræmi við tilgang stofnunarinnar, hvort sem það er til að tryggja öryggi sjófarenda, vernda umhverfið eða framfylgja reglum um fiskveiðar.

„Reynslan héðan skiptir okkur máli til að móta þessa nýju þjónustu eftir þörfum ólíkra ríkja. Við höfum flygildi sem eru mismunandi stór og með annan tæknibúnað til að sinna ólíkum þörfum.

Þannig erum við með flygildi í Danmörku sem sinna umhverfismálum. Flygildin eru útbúin skynjurum sem geta numið kolefnisútblástur,“ segir Kostelac. Í Danmörku eru flygildin nýtt til að fylgja eftir nýjum reglum um kolefnisútblástur skipa en reglurnar verða innleiddar hérlendis innan skamms.

Þörf á stóru flygildi á víðfeðmu hafsvæði

Flygildið á Egilsstöðum er ætlað til að vakta hafsvæðið í kringum Ísland. „Flygildið hér er það stærsta sem EMSA er með í sinni þjónustu. Það var þörf á því til að fylgjast með víðfeðmu hafsvæði sem íslenska Landhelgisgæslan ber ábyrgð á. Stærri flygildi hafa meira þol og þetta getur verið á lofti í rúma tólf tíma.

Eftir því sem ég kemst næst hefur flygildið verið Landhelgisgæslunni mjög gagnlegt. Út frá upplýsingum úr þessu verkefni öðlumst við þekkingu á hvað er að gerast á hafsvæðum sem nýtast okkur meðal annars til að auka öryggis sjófarenda.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.