Uppgröfturinn á Seyðisfirði vekur athygli í Noregi

Fornleifauppgröfturinn á Seyðisfirði, þar sem fjögur kuml fundust í lok sumars, vekur talsverða athygli í Noregi vegna fornra tengsla við landið sem virðast koma í ljós. Hluti úrvinnslu gagna úr uppgreftrinum er unninn þar í landi.

Samstarf er milli uppgraftarins, sem Antikva undir stjórn Ragnheiðar Traustadóttur sér um og NIKU, norskrar sjálfseignarstofnunar í fornleifarannsóknum sem áður hefur komið að verkefnum hérlendis. NIKU vinnur meðal annars þrívíddarlíkön af gripum og kumlum frá Seyðisfirði auk þess sem starfsmaður stofnunarinnar tók þátt í uppgreftrinum sjálfum.

Fjallað er um uppgröftinn í grein á heimasíðu NIKU. Þar kemur fram að mikið magn fjölbreyttra gripa frá víkingatíma hafi komið í ljós. Gripirnir, svo sem perlur, gefi til kynna að hinir gröfnu hafi tilheyrt yfirstétt.

Vitnað er til þess að Bjólfur, landnámsmaður Seyðisfjarðar, hafi samkvæmt Landnámu komið frá Noregi, nánar tiltekið bænum Voss sem er austur af Björgvin. Haft er eftir Ragnheiði að þótt rétt sé að taka Landnámu með þeim fyrirvara að hún sé skrifuð 300 árum eftir landnám sé að sama skapi ekki hægt að útiloka að Bjólfur sé í einni gröfinni.

Brýni sem fannst í kumli konu, þess síðasta sem kom í ljós, hefur vakið sérstaka athygli þar sem líkur eru taldar á að það eigi uppruna sinn í Eidsborg, sem er miðja vegu milli Oslóar og Stavanger.

Grjótnáma var við Eidsborg í hundruð ára og var grjótið þaðan flutt út sem hnífabrýni. Einkenni steinanna þaðan er að þeir eru nokkuð ljósari en annars staðar í Noregi. Opnugrein var um brýnið í síðasta helgarblaði Vest-Telemark Blad undir yfirskriftinni að útflutningsvara frá Eidsborg hafi fundist í íslenskri víkingagröf. Rætt er við safnstjórann í Vestur-Þelamörk sem sagði augljóst að brýnin hefðu verið mikilvægur útflutningur fyrir svæðið þar sem þau kæmu reglulega fram við fornleifarannsóknir.

Gera þarf nánari greiningar á steindunum í brýninu áður en hægt er að slá uppruna þess föstum. Það er meðal þeirra verka sem framundan eru í vetur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.