Unnið með Sveitarfélagið Austurland

Fulltrúar í samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar hafa náð niðurstöðu um vinnuheiti á væntanlegt sameinað sveitarfélag og meginmarkmið í viðræðunum.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var út eftir fund í sameiningarnefndinni sem haldinn var á þriðjudag. Þar kemur fram að unnið sé með vinnuheitið „Sveitarfélagið Austurland“ sem hafi það markmið að grunnþjónusta þess verði efld frá því sem nú er, meðal annars með þróun nútíma stjórnunarhátta og rafrænnar stjórnsýslu.

„Áhersla verður lögð á að virkar og öflugar starfsstöðvar verði til staðar í öllum byggðakjörnum þess, framtíðarstjórnskipulag geri ráð fyrir hverfisráðum með ákvörðunarrétt í vissum málum svo sem varðandi umhverfis- og skipulagsmál og jafnframt verði unnið að því í sameiningarferlinu að fá samþykki stjórnvalda fyrir ákveðnum samgöngubótum innan svæðisins sem munu gegna lykilhlutverki varðandi framtíðarþróun þess,“ segir í tilkynningunni.

„Horft er til þess að íbúar sveitarfélaganna fjögurra kjósi um sameiningu þeirra fyrir árslok 2019 og mun verða leitast við að virkja starfsmenn, íbúa og fulltrúa félagasamtaka í þeirri vinnu sem leiða mun síðan af sér tillögur að framtíðarfyrirkomulagi Sveitarfélagsins Austurlands sem kosið verður þá um.“

Á fundi nefndarinnar var einnig samþykkt að ganga við RR ráðgjöf um verkefnastjórn og vinnu við stöðumat og framtíðarsýn. RR ráðgjöf er stýrt af Róberti Ragnarssyni, fyrrum bæjarstjóra í Vogum og Grindavík en síðan í haust hefur starfað með honum Páll Björgvin Guðmundsson, fyrrum bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar