Orkumálinn 2024

Ungmennaráð Fjarðabyggðar fái greitt fyrir sín störf eins og aðrir

„Þetta er eðlilegt skref að mínu mati og vonandi til þess fallið að fá meiri og virkari þátttöku unglinganna í nefndarstarfinu,“ segir Eyrún Inga Gunnarsdóttir, deildarstjóri tómstunda og forvarnarmála hjá Fjarðabyggð.

Íþrótta- og tómstundanefnd sveitarfélagsins hefur samþykkt og sent til bæjarráðs tillögu þess efnis að ungmennin sem sitja í ungmennaráði fái greitt fyrir setu í ráðinu líkt og aðrir sem í slíkum ráðum og nefndum sitja.

Það ráð samanstendur af ungmennum frá 13 til 18 ára aldurs og á að gæta hagsmuna ungmenna í sveitarfélaginu gagnvart sveitarstjórn. Það er gert með að koma skoðunum og tillögum frá unga fólkinu réttar leiðir í stjórnkerfinu.

Eyrún segir að þetta árið hafi verið lýðræðislega kosið í ungmennaráð meðan áður fyrr hafi ungmennin meira verið skikkuð til þátttöku. Það hafi haft í för með sér að umræður á fundum hafi á köflum verið litlar sem sé miður því rödd unga fólksins þurfi að heyrast eins og annarra.

„Þetta tengist líka inn á innleiðingu Fjarðabyggðar á verkefninu Barnvænt sveitarfélag en til að fá þá viðurkenningu þarf börnum og unglingum að vera tryggð tækifæri til að hafa áhrif á samfélag sitt og umhverfi.“

Allnokkur sveitarfélög landsins hafa tekið upp þennan háttinn og má þar nefna Múlaþing, Akureyrarbæ og Bolungarvík. Hjá Fjarðabyggð er lagt til að formaður ráðsins fái greiddar rúmar 40 þúsund krónur fyrir hvern mánaðarlegan fund en aðalmenn helmingi lægri upphæð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.