Ungmennaráð Fjarðabyggðar krefst úrbóta á húsnæði félagsmiðstöðva

„Ungt fólk vill hafa áhrif á samfélagið sitt,” segir Heiðbrá Björgvinsdóttir, sem situr í Ungmennaráði Fjarðabyggðar, en það leggur reglulega fram tillögur á fundum bæjarstjórnar. Ráðið villl meðal annars sjá úrbætur á húsnæði félagsmiðstöðva í bæjarfélaginu.Ungmennaráð Fjarðabyggðar er skipað fulltrúum úr 8. til 10. bekk allra grunnskóla í Fjarðabyggð, tveimur fulltrúum Verkmenntaskóla Austurlands og tveimur sameiginlegum fulltrúum íþróttafélaga, ungmennafélaga og unglingadeilda björgunarsveita.

Helsta hlutverk þess er að gæta hagsmuna ungs fólks í Fjarðabyggð á aldrnum 13 til 18 ára gagnvart sveitarstjórn og er því heimilt að gera tillögur til bæjarstjórnar um stefnumörkun í málefnum ugns fólks.


Ástandið almennt slæmt
Heiðbrá er nemandi í 10. bekk í grunnskólanum á Fáskrúðsfirði. Hún og Guðrún Ragna Kristjánsdóttir, sem einnig situr í Ungmennaráði, vöku nýlega athygli á slæmum húsnæðiskosti félagsmiðstöðva Fjarðabyggðar. Í fundargerð segir að ráðið hafi ítrekað vakið athygli á málefninu og fól eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd felur sviðstjóra að vinna málið áfram í samræmi við umræður á fundinum og leggja fyrir fundinn að nýju.

„Okkur þykir ástandið á húsakosti félagsmiðstöðva í Fjarðabyggð almennt slæmt. Til dæmis eru klósettin hérna á Fáskrúðsfirði afar ósnyrtileg og það rennur brúnt vatn úr krönunum. Ég er ekki að segja að það sé skítugt, sem væri þá eitthvað sem við gætum lagað, heldur eru þetta atriði sem við getum sjálf ekkert gert í,” segir Heiðbrá og minnist einnig á brotnar rúður og fleira.

„Það hefur ítrekað verið kvartað undan þessu án þess að neitt sé að gert. Við höfum þá trú á því að eitthvað fari að gerast núna,” segir Heiðbrá vongóð og segir að þrátt fyrir lakar aðsæður séu ungmennin dugleg að sækja félagsmiðstöðvarnar.


Húsnæði almennt eftir á hvað viðhald varðar
Bjarki Oddsson er íþrótta- og tómstundafulltrúi Fjarðabyggðar. Aðspurður hvort hann telji að málin verði sett í farveg fljótlega segir hann;

„Húsnæðiskostur félagsmiðstöðvanna er misgóður milli byggðakjarna. Almennt má segja að húsnæðið sé eftir á hvað varðar viðhald en verið er að vinna að tillögum til úrbóta. Búið er að skipa nefnd til að skoða málefni tómstundastarfs í Fjarðabyggð og hluti af því er að skoða mögulegan flutning á félagsmiðstöðvum í hentugra húsnæði.”


Fara frekar heim í sturtu eftir skólasund
Þær Heiðbrá og Guðrún Ragna vöktu á sama fundi máls á ástandinu á sundlauginni á Fáskrúðsfirði og hefur eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd falið sviðstjóra að vinna málið áfram í samræmi við umræður á fundinum.

„Sturturnar í sundlauginni eru það lélegar að við stelpurnar í skólasundi förum frekar heim í sturtu fyrir næsta tíma því að það lekur bara rétt úr þeim. Okkur þykir þetta þó ekki eins aðkallandi og húsnæðismál félagsmiðstöðvanna. Okkur þykir þó skrítið að það kosti það sama í þessa sundlaug og til dæmis á Norðfirði og Eskifirði þar sem aðstaðan er gerólík. Þarna hefur ekkert breyst mjög lengi og það var staðfest af bæjarfulltrúa á fundinum.”

 

Mætti kynna ungmennaráðið betur
Heiðbrá segir seta sín í Ungmennaráði hafa gert sér gott. „Ég þori núna að koma skoðunum mínum á framfæri og að tala fyrir framan aðra. Mér finnst þó að mætti kynna þetta betur í skólunum, ég hafði ekki hugmynd um að þetta væri til áður en mér var boðið að þátr. Ég veit um marga sem myndu vilja tækifæri til að taka þátt í þessu starfi.”


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.