Undirbúningur hafinn að sameiningu sýslumannsembættanna í eitt
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 14. mar 2022 17:27 • Uppfært 14. mar 2022 17:29
Dómsmálaráðherra hefur kynnt áform um að sameina öll sýslumannsembætti landsins í eitt. Ekki stendur til að loka neinni núverandi skrifstofa embættanna á landinu.
„Það var fundað með öllum sýslumönnum síðasta mánudag en áður var búið að tala við sýslumannaráð. Síðan fengum við senda tilkynningu áður en fundað var með öllum starfsmönnum embætta síðasta fimmtudag,“ staðfestir Lárus Bjarnason, sýslumaður á Austurlandi.
Hann segir gert ráð fyrir að breytingarnar taki gildi um áramótin 2023/2024. Töluverð vinna er framundan áður en að því kemur. Undirbúningur að samráði og síðan formlegt samráð verði í vor og sumar en frumvarps um breytingar á lögum komi fram á þingi í haust.
Viðbúið er að breyta þurfi nokkrum lögum, þótt mestu breytingarnar verði á lögum 50/2014 um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Þar eru skilgreind níu sýslumannsembætti, þar af eitt á Austurlandi með aðalaðsetur á Seyðisfirði. Fram til 2015 voru embættin eystra tvö, hitt á Eskifirði en það fékk yfirumsjón með lögreglu í umfangsmiklum breytinum þá.
Lárus segir að á fundnum hafi verið fullyrt að aðgerðirnar væru ekki í hagræðingarskyni, heldur til að efla þjónustu og bregðast við breyttum tímum með aukinni rafrænni stjórnsýslu. Þannig verði áfram sömu skrifstofur sýslumanna og eru í dag og þau skilaboð hafi verið send að starfsfólk þurfi ekki að óttast að missa vinnuna.
Þessu fylgi endurskipulagning, einhverjar skrifstofur fái sérstök verkefni og til verði störf án staðsetninga en undir stjórn eins sýslumanns. Eins hafi verið talað um að fá sýslumannsembættinu ný verkefni en ekki sé ljóst hver þau verði.
Aðspurður segist Lárus rólegur yfir boðuðum breytingum. „Ég hef farið í gegnum ýmsar breytingar síðan ég var sendur á Ísafjörð sem fulltrúi sýslumanns árið 1984 og kom hingað 1989. Síðan hefur dómsvald, tollstjórn og lögreglustjórn verið færð frá okkur
Það er farið að síga á minn starfsferil svo ég er ekki trekktur en þetta hefur áhrif á kollegana og annað fólk í kringum mig. Það er í lausu lofti og hefur spurningar. Vonandi kemur því fljótlega í ljós hvernig þetta verður.“