Undirbúa skimun á Austurlandi

Á vegum Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Íslenskrar erfðagreiningar er verið að undirbúa skimun til að kanna útbreiðslu covid-19 veirunnar. Vonast er til að hægt verði að hefja skimunina á næstu dögum.

Íslensk erfðagreining hefur undanfarið boðið almenningi upp á skimanir fyrir veirunni í húsnæði sínu í Turninum í Kópavogi. Í viðtali við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar í Morgunblaðinu í dag, kemur fram að verið sé að undirbúa skimanir á landsbyggðinni og að líkindum verði byrjað á Austurlandi og Vestmanneyjum.

Þetta staðfestir Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, í samstarfi við Austurfrétt. „Við erum að skipuleggja þetta.“

Ekki er því enn fyllilega ljóst hvenær verður ráðist í skimunina. Meðal annars er beðið eftir að fá búnað austur frá Íslenskri erfðagreiningu. „Þetta verður vonandi á næstu dögum. Fyrsti tíminn er bestur.“

Stefnt er að því að skima bæði á Reyðarfirði og Egilsstöðum. Allt nánara fyrirkomulag skimunarinnar verður tilkynnt nánar þegar það liggur fyrir og Austfirðingar hvattir til að skrá sig í skimun. „Við viljum sjá hvernig dreifingin er á Austurlandi. Til þess þurfum við gott úrtak,“ segir Guðjón.

Markmið skimunarinnar hefur verið að kanna hversu útbreitt covid-19 smit er í samfélaginu. Hjá heilbrigðisstofnunum gildir að aðeins er tekið sýni úr þeim sem grunur er um að séu sýktir og sýna ákveðin einkenni. Allir geta hins vegar skráð sig í skimun, svo lengi sem þeir eru frjálsir ferða sinna - hvorki í sóttkví né einangrun. Skimunin sker ekki endanlega um hvort fólk sé með veiruna, hún kannar aðeins hvort hún sé mælanleg á því augnabliki sem sýni er tekið úr einstaklingnum en meðgöngutími hennar getur verið allt að 14 dagar.

Samkvæmt síðustu tölum hafa sex einstaklingar á Austurlandi greinst með veiruna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.