Umræða um geðheilbrigðismál á vörum allra ungmenna

Húsfyllir var á sal Menntaskólans á Egilsstöðum í dag á ungmennaþingi ungmennaráðs Fljótsdalshéraðs þar sem geðheilbrigðismál voru rædd. Formaður ráðsins segir geðheilbrigðismál ofarlega í hugum ungmenna.

„Þau eru á allra vörum í sinni víðustu mynd og eru mikið rædd milli krakkanna hér í Menntaskólanum,“ segir Erla Jónsdóttir formaður ráðsins.

„Krakkarnir eru mikið inni í umræðunni og finnst allt sem henni viðkemur skipta máli. Við vitum að það vantar úrræði, einkum hér fyrir austan.“

Ungmennaþing er haldið árlega á Héraði og í ár var það val ráðsins að setja geðheilbrigðismálin í öndvegi. „Við ætluðum fyrst að hafa heilsueflandi samfélag í sinni víðustu mynd en okkur fannst geðheilbrigðisumræðan vera detta niður og vildum ýta henni upp aftur.“

Dauðaþögn undir framsöguræðum

Frummælendur á þinginu í dag voru Elísabet Reynisdóttir, næringarfræðingur, Tara Ösp Tjörvadóttir, fyrrverandi nemandi í skólanum og forsprakki átaksins #égerekkitabú, matgæðingurinn Albert Eiríksson sem fjallaði um þegar hann kom út úr skápnum, Snapchat-stjarnan Sigrún Sigurpálsdóttir sem sagði frá baráttu sinn við átröskun og Ólafur Hr. Sigurðsson, fyrrum bæjarstjóri á Seyðisfirði sem beitt hefur sér í geðheilbrigðismálum eftir að sonur hans tók eigið líf.

Hátíðarsalur ME var troðfullur á meðal málþinginu stóð og algjört hljóð meðal áheyrenda. Þeir nýttu hins vegar tækifærið vel í fyrirspurnatíma þar sem færi gafst á að spyrja frummælendur frekar út í skoðanir þeirra á geðheilbrigðisþjónustu, skólakerfinu, lifnaðarháttum og úrræðum.

Áfengið hjálpar ekki

Þannig mæltu bæði Elísabet og Ólafur gegn notkun áfengis. „Áfengi er boðefni sem fer misjafnlega í okkur,“ sagði Elísabet sem hvatti nemendur til að láta það eiga sig sem lengst. „Það fer ekki neitt.“

Ólafur sagðist einu sinn hafa strengt áramótaheit, áramótin áður en sonur hans lést hét hann því að drekka ekki í heilt ár. „Ég tókst á þetta með kollinn í lagi. Ég er ekki viss um ég hefði komist í gegnum þetta allsgáður.“

Umræðan er að opnast

Frummælendurnir hvöttu til umburðarlyndis og fjölbreytni í þjónustu þar sem einstaklingarnir væru mismunandi. Þá yrði skólakerfið og fleiri að hjálpa til við að efla unga einstaklinga, sterkur einstaklingur sé til dæmis líklegri til að leita sér hjálpar þegar eitthvað bjáti á.

Þau lögðu einnig að bæði þjónustan og umræðan væru að þróast til betri vegar. „Geðheilbrigðismálum hefur fylgst skömm og það mátti ekki ræða um þau. Það hefur breyst,“ sagði Albert.

„Umræðan er að opnast og við lærum að tala. Það á ekki að vera meira mál að segjast vera með kvíða heldur en vera með hausverk,“ sagði Sigrún.

Erla var ánægð í lok dags. „Við erum ánægð með hvað þetta fór vel fram, hvað allir voru tilbúnir að hlusta og taka þátt í umræðunni. Ég held að krakkarnir úr grunnskólanum og Menntaskólanum hafi virkilega tekið það til sín sem þetta flotta fólk sagði. Það skiptir máli að geðheilbrigðisumræðan sé í gangi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar