Um tuttugu hús bætast við á hættusvæði C

Húsum á hættusvæði C, mesta hættusvæði, á Seyðisfirði fjölgar um tuttugu samkvæmt nýju hættumati sem kynnt var íbúum í dag. Hættumatið er unnið miðað við að engar varnir verði reistar. Hættumatið er að mestu svipað og það sem gefið var út árið 2019.

Veðurstofan hefur unnið að nýju hættumati fyrir sunnanverðan fjörðinn síðan skriðurnar féllu á bæinn þann 18. desember. Það er ekki tilbúið að fullu til útgáfu en helstu niðurstöður voru kynntar á íbúafundi í Herðubreið í dag.

Búið var að kynna hluta þess síðasta vetur, eða á svæðinu fyrir utan Búðará. Varð það meðal annars til þess að búseta var bönnuð í húsum við Stöðvarlæk. Ekki eru breytingar á þessu svæði frá því sem áður hafði verið kynnt.

Öll Botnahlíð á C-svæði

Breytingarnar sem kynntar voru í dag snerta svæðið frá Búðará og inn að Dagmálalæk. Á þessu svæði bætast um tuttugu hús við hættusvæði C. Stærsta breytingin er að eftir endurskoðunina teljast öll hús við götuna Botnahlíð á hættusvæði C en áður voru nær eingöngu þau hús sem standa ofan við götuna á því svæði. Eftir endurskoðun er klettabelti ofan við hlíðina ekki talið veita þá vörn sem áður var.

Tvö hús yst í Bröttuhlíð bætast á hættusvæði C auk húsa við utanverðan Austurveg. Þótt skriða kæmi niður við menningarmiðstöðina Skaftfell í desember er það hús ekki talið á hættusvæði C, heldur húsin þar fyrir utan með húsnúmer 48-56.

Á þessu svæði eru ummerki um stórar skriður, sem taldar eru geta fallið á 2500 ára fresti. Skriður um 10 þúsund rúmmetra eru taldar geta fallið á um 100 ára fresti. Þekkt er að litlar skriður hafa fallið á efstu húsin við Botnahlíð undanfarna áratugi, meðal annars í desember, en þær hafa lítil áhrif á endurskoðað hættumatið.

Magni Hreinn Jónsson, hópstjóri á ofanflóðadeild Veðurstofunnar, kynnti matið í dag en það er unnið af stofnunni. Hann sagði þarna víðáttumiklabyggð undir hlíðarfæti og aðstæður væru að mörgu leyti líkar því sem væru utan Búðarár. Línur fyrir hættusvæði B og A færast einnig til.

Unnið að frumhönnun varna

Samkvæmt lögum skal öryggi húsa á hættusvæði C tryggt með varanlegum varnarmannvirkjum eða uppkaupum húsa. Verkfræðistofan EFLA vinnur að frumhönnun varnarmannvirkja. Sú vinna var komin af stað í desember en hefur nú verið flýtt. Þá hafa verið byggðar upp bráðabirgðavarnir á svæðinu en hættumatið nú miðar við landslagið án þeirra.

Hættumatið verður skoðað þegar frumhönnun varnanna liggur fyrir. Þær eru síðan byggðar í samvinnu ríkis og sveitarfélags. Á fundinum í dag sagði Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, að ákvörðun um framkvæmdir yrði ekki tekin fyrr en hönnunin lægi fyrir. Sem fyrr segir er verið að vinna í frumhönnuninni og gengur vel en óvíst er hvenær henni lýkur.

Björn bætti við að búast mætti við að hluti framkvæmdanna tæki langan tíma. Á fundinum var ennfremur bent á oftar en einu sinni að mörg ár getur tekið fyrir áhrif varnarmannvirkja, til dæmis til að leiða vatn út af svæðinu, að koma að fullu í ljós. Hættumat hefur ekki verið endurskoðað áður hérlendis eftir slíkar aðgerðir.

Engar breytingar utan Búðarár

Hvað varðar önnur svæði við sunnanverðan Seyðisfjörð þá er allt svæðið undir Þófum, sem lýsa má sem athafnasvæði Síldarvinnslunnar, á hættusvæði C. Þar eru áhyggjur af lækjarfarvegum en einnig úr þykkum setlögum, sem að hluta eru sífreri, ofarlega í Strandartindi. „Stóra skriðan sýnir skýrt hvaða hætta kann að vera þarna á ferðum,“ sagði Magni Hreinn.

Utar, á svæðinu milli Hörmungarlækjar og Búðarár, eru þekktar skriður í lækjarfarvegum en ekki á milli þeirra fyrr en í desember. Á þessu svæði eru jarðlög sem los komst á þá. Magni Hreinn sagði að líklegt væri að vegna þessara jarðlaga yrði talin meiri skriðuhætta en áður á svæðinu á næstunni.

Hann lýsti því að upplýsingar úr skriðuhrinunni í desember hefðu nýst Veðurstofunni til að taka í notkun eðlisfræðilegt skriðulíkan, sem spáir yfir um hegðan aurskriða, en áður hafði verið notast við snjóflóðalíkön. Það nýttist nú við gerð hættumatsins.

Þessir líkindareikningar benda til þess að jarðlög, sem los komst á, falli að mestu í farveg stóru skriðunnar, en geti ekki fallið í lækjarfarvegi. Magni sagði að þarna væri „nóg efni í stóraskriðu“ og líklegt sé að skriðuhætta verði í nokkurn tíma talin meiri en var. Hús næst utanverðri Búðar vor upphaflega talin á hættusvæði C en voru færð um flokk eftir að bráðavarnir voru settar upp.

Skriðurnar í uppgreftrinum áhugaverðar

Aðspurður um svæðið innan Dagmálalækjar, þar sem verið er að byggja ný hús, svaraði Magni Hreinn að ekki hefði verið talin ástæða til að ráðast í endurskoðun á því svæði né heldur fyrir norðurbyggðina. Á fundinum kom þó fram að vísbendingar, sem fornleifafræðingar hafa fundið við uppgröft nærri bæjarstæði Fjarðar í norðanverðum firðinum, um áður óþekktar stórar skriður eftir landnám, verði skoðaðar.

Magni benti þó á að norðanverður fjörðurinn væri vel þekktur vegna snjóflóðahættu. Við því sé verið að bregðast með uppbyggingu varnarmannvirkja sem einnig eigi að geta tekið vel við skriðuföllum. Ólíklegt sé því að upplýsingar fornleifafræðinganna breyti nokkru um hættumatið þar.

Breyting á hættusvæðum innan Búðarár, án tillits til bráðabirgðavarna. Lína sem afmarkar C-svæði er rauð, B-svæði blá og A-svæði gul. Heilar línur tákna ný hættusvæðin en brotnar línur hættusvæði eins og þau voru eftir í hættumati 2019. Mynd: Veðurstofa Íslands

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.