Um þúsund manns sem bíða eftir loðnu

Hætt er við að þeir sem starfa við sjávarútveg missi stóra spón úr aski sínum verði ekkert úr loðnuvertíð. Enn er haldið í vonina því þekkt er að enn séu góðar líkur á veiðum upp úr miðjum mars.

„Hringinn í kringum landið eru 11 fiskimjölsverksmiðjur og níu hrognavinnslur með alls um 1000 starfsmenn sem bíða eftir loðnu. Hjá okkur eru þetta um 150 starfsmenn með sjómönnum,“ segir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.

Þrátt fyrir talsverða leit frá því um áramót hefur ekki enn fundist loðna í því magni að talið sé óhætt að gefa út veiðikvóta. Reyna á til þrautar um helgina þegar Polar Amaroq, skip grænlensks dótturfélags Síldarvinnslunnar og Ásgrímur Halldórsson frá Höfn láta úr höfn.

Fyrirhugað er að Ásgrímur fari meðfram suðurlandinu en Polar norður fyrir. „Við ætlum að skoða vesturgöngu og áfram upp með Norðurlandi. Við vitum að loðnan hefur oft komið í töluverðu magni upp að Norðurlandi seint. Hoffell náði til dæmis tveimur fullfermistúrum fyrir norðan í fyrra eftir 14. mars.“

Loðnuvertíðinni hefur lokið um miðjan mars en Gunnþór bendir að sé horft lengra aftur í tímann hafi þekkst að loðna væri veidd og hrogn úr henni unnin framundir lok mánaðarins.

„Ef ég á að vera heiðarlegur þá er ég orðinn vondaufur en við höldum í vonina. Þrátt fyrir allt er eftir miklu að slægjast því hrognatíðin er verðmætust. Við trúum að eitthvað af birtingamyndum fyrri tíðar verði uppi á teningnum.“

30% tekjulækkun hjá sjómönnum

Loðna hefur verið veidd við Íslands samfleytt frá árinu 1963. Samkvæmt samantekt Landsbankans hefur útflutningsverðmæti hennar verið tæpir 20 milljarðar króna síðustu þrjú ár.

„Loðnan er um 40% útflutningstekna hjá fyrirtækjum í uppsjávarfiski. Hún var 35% í okkar tekjum miðað við áætlun, en við vorum reyndar ekki með mikinn loðnukvóta inni í þeim.

Ég geri ekki lítið úr áhrifum þess ef ekki finnst loðna á umfang fyrirtækjanna en þau draga saman í fjárfestingum og fara í gegnum þetta. Hjá sjómönnum get ég trúað að þetta sé 30% tekjulækkun. Hlutfallslega þyngsta höggið er hins vegar fyrir starfsfólkið sem fer á milli staða og treystir á vertíðar. Loðnubrestur kemur víða niður, það má reikna með að Fjarðabyggð verði af 200-250 milljónum í tekjur.“

Á meðan ekki finnst loðna hafa skip Síldarvinnslunnar stundað loðnuveiðar á alþjóðlegu hafsvæði vestur af Írlandi. „Það hefur gengið upp og ofan. Siglingin er löng og veiðarnar kostnaðarsamar því svæðið er erfitt og tíðarfarið hefur verið það einnig.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.