Um þriðjungur skútanna laskaður

Frönsku siglingakeppninni Vendée Arctique var hætt í gærkvöldi og keppendur leituðu vars. Félagar úr Siglingaklúbbi Austurlands og björgunarsveitinni á Fáskrúðsfirði gera sig klára í að hjálpa skútunum til lands.

Alls lögðu 24 skútur af stað frá Vendée-héraði í Frakklandi á sunnudag og ætluðu að sigla norður fyrir Ísland og verða þar með fyrsta siglingakeppnin til að fara yfir heimsskautsbauginn. Kröpp lægð við Ísland breytti þeim fyrirætlunum og á fimmtudag var ákveðið að gera hlé á keppninni við Papey og keppendur leituðu vars inni á Fáskrúðsfirði.

Aðeins tvær fremstu skúturnar náðu svo langt, sú þriðja kaus að lóna úti fyrir Djúpavogi. Um miðnætti í gær var ákveðið að hætta keppni alveg og láta stöðuna gilda sem lokaúrslit en keppendum var skipað að finna sér var þar sem þeim hentaði.

Flestar skúturnar voru í morgun úti fyrir Djúpavogi eða Höfn en einnig drjúgur hópur suður af landinu. „Þær hafa verið að hringsóla fyrir utan landið í ákjósanlegasta veðrinu. Um þriðjungur er orðinn laskaður. Segl hafa brotnað eða rifnað, eitt framsegli fór alveg og ég heyrði af mastri.

Sumir eru að gera sig klára í að sigla inn og við tökum á móti þeim frá frá Siglingaklúbbi Austurlands og björgunarsveitinni á Fáskrúðsfirði. Við náum þeim inn eftir því sem veður leyfir. Við erum að fara að undirbúa aðgerðirnar og svo skýrist þetta betur þegar líður á daginn,“ segir Ingvar Björnsson, frá Siglingaklúbbnum sem aðstoðað hefur keppendur.

Skipstjórarnir eru einir um borð og ekki fyllilega ljóst hvort þeir séu allir ómeiddir en ljóst að þeir séu orðnir þreyttir.

„Þeir síðustu lentu verst í veðrinu. Það fólk er orðið mest veðrað, jafnvel þrekað. Við erum til dæmis að fara út í einn bátinn með tvo menn að utan til að sigla honum inn. Ef menn eru orðnir mjög þreyttir getur verið erfitt að stýra bátunum að landi eða tengja þá við ból.“

Vakt Landhelgisgæslunnar hefur fylgst með þróun mála. „Þessir bátar ráða vel við veðrið en þó má lítið út af bregða þegar veðrið er orðið svona. Þess vegna eru allir komnir í startholurnar.“ 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.