Um 20 Austfirðingar í heimasóttkví

Um tuttugu Austfirðingar eru nú í heimasóttkví til að koma í veg fyrir útbreiðslu mislinga. Um sjö hundruð manns hafa verið bólusettir undanfarna daga.

Til margvíslegra ráðstafana hefur verið gripið síðustu viku til að hefta útbreiðslu mislinga. Á föstudag var kallað eftir að allir óbólusettir kæmu til bólusetningar og samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) höfðu um 700 manns látið bólusetja sig síðan.

Þá eru um 20 manns í heimasóttkví undir eftirliti heilsugæslunnar. Í henni felst að þeir einstaklingar sem hafa komist í tæri við sýktan einstakling skulu að mestu halda sig heima frá degi 6 eftir að þeir komust í tæri við hann og fram að degi 21.

Viðkomandi má alls ekki umgangast þá sem ekki hafa verið bólusettir fyrir mislingum eða fengið mislinga. Ekki skal fara á mannamót, í verslanir, á heilsuræktarstöðvar, á aðra fjölmenna staði eða nota almenningssamgöngur.

Í lagi er að fara í bílferð á eigin bifreið og til greina kemur að fara inn á önnur heimili ef staðfest er, að allir þar eru ónæmir fyrir mislingum, þ.e. bólusettir eða með fyrri sögu um mislinga. Þeir sem eru óbólusettir með öllu eru áfram í forgangi þar sem bóluefni er takmarkað. Von er á nýrri sendingu til landsins um miðja vikuna. Ekki hafa komið upp ný tilfelli síðan á föstudag.

Áfram verður bólusett á heilsugæslustöðvunum á Egilsstöðum og Eskifirði. Á Egilsstöðum verður bólusett milli klukkan 15 og 16 miðvikudag, fimmtudag og föstudag. Gengið er inn hægra megin við aðalinngang heilsugæslu. Á Eskifirði verður bólusett milli klukkan 15 og 16 á fimmtudag.

Hafi fólk grun um að það sé smitað er það beðið um að koma ekki á heilsugæslustöðvar heldur hafa samband í síma 1700 sem er vaktsími opinn allan sólarhringinn fyrir landið allt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.