Um 10% fengu ekki SMS-boð almannavarna

Á milli 9-10% þeirra viðtækja GSM-kerfisins, sem voru í Neskaupstað á miðvikudag, virðast ekki hafa fengið SMS-boð sem send voru út þegar kerfi almannavarna var prófað.

Boðin voru send út milli klukkan 13 og 13:30 á miðvikudag og viðtakendur beðnir um að láta vita í gegnum vef Neyðarlínunnar ef þeir fengu ekki boð. Móttöku athugasemda lauk á miðnætti og voru fyrstu niðurstöður tilraunarinnar kynntar á fundi fyrir hádegið.

Að sögn Kristjáns Ólafs Guðnasonar, yfirlögregluþjóns á Austurlandi, eru 1605 viðtæki hafa verið í Neskaupstað þennan tíma. Er þar ekki bara um að ræða símtæki heldur jafnvel greiðsluposa eða úr. Af þeim hafa 148 látið vita að ekki hafi borist boð.

Kristján segir þetta góða þátttöku sem veiti áhugaverðar niðurstöður, sem þó séu í takt við það sem ráð hafði verið gert. Ekki sé annað vitað en tilraunin hafi gengið vel en framundan sé nánari greining á hvers vegna hluti símnotenda fái ekki boð. „Þetta er gott svarmengi sem vonandi getur rétta og góða mynd sem dugar til að finna vandann og vonandi lausnina,“ segir hann.

Tilraunin var gerð í ljósi ábendinga í bæði skriðuföllunum á Seyðisfirði 2020 og snjóflóðunum í Neskaupstað í lok mars um að SMS-boð Neyðarlínu og almannavarna hefðu ekki skilað sér í öll símtæki. Niðurstöðurnar eiga að nýtast til að bæta kerfið um allt land.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.