Tvöfalda afkastagetuna fyrir slátrun í haust

Til stendur að tvöfalda afkastagetu Búlandstinds á Djúpavogi seinni part sumars til að mæta auknu fiskeldi í haust þegar stærri árgangar koma til slátrunar en verið hefur. Framkvæmdastjórinn segir uppbygginguna hafa verið stöðuga síðan fyrirtækið tók til starfa fyrir þremur árum.

„Fiskvinnsla er lifandi iðnaður og við höfum þurft að aðlagast markaðsbreytingum og ýmsum þáttum. Við höfum verið í uppbyggingu, með smá hléum, síðan við byrjuðum 2015,“ segir Elís Hlynur Grétarsson, framkvæmdastjóri Búlandstinds í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Um miðjan maí var settur upp ofurkælitankur sem keyptur var frá Skaganum/3X í fyrra. Eftir slægingu er fiskurinn snöggkældur niður í -1°C. „Þannig lengjum við líftímann á honum um fimm daga. Fiskurinn er orðinn það kaldur að hann þarf minni ís og verður að betri vöru. Þessi tækni hefur verið notuð hjá ísfisktogurunum með bolfiskinn með góðum árangri.“

Í vetur var farið í endurbætur á húsnæðinu. „Við erum í gömlu húsi og tókum hluta af því og endurbættum mikið. Við komum einnig upp sláturlínu fyrir lax því við dælum honum lifandi inn, slátrum, blóðgum og slægjum.“

Bjartsýni í eldinu

Uppbyggingin heldur svo áfram seinni part sumars því áformað er að koma upp slægingarvélum, sjálfvirkum staflara fyrir kassa og endurbættum flokkara fyrir haustið. „Við erum að undirbúa okkur undir að geta tekið á móti að minnsta kosti 60 tonnum á dag. Við höfum mest afkastað þrjátíu til þessa.“

Búlandstindur slátrar laxi fyrir Fiskeldi Austfjarða í Berufirði en í haust bætast við fiskar frá eldi Laxa í Reyðarfirði. „Það er bjartsýni hjá eldisfyrirtækjunum. Seiðaframleiðslan hefur gengið vel og farið er að sleppa seiðunum stærri í sjó en áður sem styttir tímann í sjóeldinu og hraðar framleiðslunni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.