Tvö stærstu selalátur landsins á Austfjörðum

Tvö stærstu fjölmennustu selalátur landsins eru á Austfjörðum. Dýrunum fjölgar verulega á þessum svæðum og þar með í fjórðungnum.

Þetta kemur fram í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um ástand landsels við Íslands sem kom út í dag. Þar er greint frá talningum á landsel sumarið 2020, en síðast var talið 2018.

Stærsta selalátur landsins er í Álftafirði þar sem sáust tæplega 390 dýr. Mikil fjölgun vekur athygli, þau voru 130 árið 2018. Ekki er nánari skýringu á fjölguninni að finna í skýrslunni.

Næst stærsta byggðin er í Jökulsá á Dal. Þar sáust 356 dýr en voru rúmlega 300 árið 2018. Alls voru því talin 861 dýr eystra, samanborið við 624 árið 2018 og 530 árið 2016.

Þriðja stærsta selalátrið er Vatnsnes, með 240 seli. Norðurland vestra hefur enn flesta seli af landshlutunum, rétt ríflega 930.

Í skýrslunni kemur fram að selastofninn sé heldur að styrkjast eftir að hafa verið í algjöru lágmarki árið 2016. Fjölgunin milli nýjustu talninganna sé 9%. Stofninn er samt veikur, miðað er við að hann sé um 12.000 dýr og vantar um 14% upp á það. Þá er hann 69% minni en þegar fyrst var talið árið 1980. Skýrsluhöfundar segja að svo virðist sem stofninn sveiflist í kringum lágmarksstærð nú.

Ekki er vitað hvað veldur stöðunni, nefnd eru áhrif beinna veiða, óbeinna veiða þar sem selir koma sem meðafli við netaveiðar, loftslagsbreytingar auk truflunar frá mannfólki.

Beinar veiðar á sel voru að mestu bannaðar árið 2019 eftir að síðasta stofnstærðarmæling var opinberuð. Hafrannsóknastofnun leggur til að þær verði takmarkaðar áfram auk þess sem reynt verði að draga úr því að selirnir veiðist sem meðafli.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.