Tvö framboð sögðust vilja Björn Ingimarsson sem bæjarstjóra

Tvö framboð af fimm í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi telja farsælast að Björn Ingimarsson, bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði og formaður undirbúningsstjórnar sameiningar, verði fyrsti bæjarstjóri nýs sveitarfélags. Það var tillaga undirbúningsstjórnarinnar en hún var ekki samþykkt einróma.

„Við viljum auglýsa en ég hlakka til að heyra svörin frá hinum framboðunum,“ sagði Helgi Hlynur Ásgrímsson, annar maður á lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á framboðsfundi Austurfréttar/Austurgluggans og sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs í gærkvöldi.

Helgi Hlynur svaraði fyrstur spurningunni um hvort framboðin vildu auglýsa eftir bæjarstjóra. Fulltrúar Framsóknarflokks og Miðflokks vildu báðir að Björn yrði bæjarstjóri.

„Hann hefur staðið sig vel. Það er hættulegt að skipta fyrir svona stutt tímabil. Nóg er raskið annars út af sameiningunni,“ sagði Þröstur Jónsson, oddviti Miðflokks. „Við viljum klára sameininguna vel og þar skiptir máli að hafa gott starfsfólk,“ sagði Jónína Brynjólfsdóttir, frá Framsóknarflokki.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Austurlistans sögðust ekki hafa fastmótaða afstöðu um ráðningu bæjarstjóra. Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlistans, sagði starfið frábrugðið öðrum og yrði að ræða í myndum meirihluta. Gauti Jóhannesson, oddviti Sjálfstæðisflokks tók í sama streng og bætti við að framboðið hefði ekki ákveðið bæjarstjóraefni.

Undirbúningsstjórn mæltir með áframhaldandi ráðningu

Fjórir bæjarstjórar eru í núverandi sveitarfélögum og hafa starfssamningar þeirra verið á borði undirbúningsstjórnar sameiningarinnar í sumar. Einn þeirra, Gauti, hefur látið vita af því að hann sækist ekki eftir áframhaldandi starfi eftir kosningar en þá eru eftir Björn á Fljótsdalshéraði, Aðalheiður Borgþórsdóttir á Seyðisfirði og Jón Þórðarson á Borgarfirði.

Undirbúningsstjórnin hefur takmarkaðar heimildir til að binda hendur væntanlegrar sveitarstjórnar með ráðningum starfsfólks. Því var á fundi hennar í lok júní samþykkt tillaga um að samið yrði við Björn um að verða sveitarstjóri nýs sveitarfélags fram að kosningum vorið 2022. Eins mælti undirbúningsstjórnin með því að Jón og Aðalheiður yrðu ráðin sem fulltrúar sveitarstjórnar á sínum stöðum út sama tíma.

Samkvæmt tillögunni halda þau núverandi kjörum í þrjá mánuði eftir gildistöku sameiningar, það er út þetta ár, en síðan samkvæmt nýja starfinu. Áætlað er að það verði 50% stöðugildi ásamt öðrum störfum fyrir sveitarfélagið. Þá mælti undirbúningsstjórnin með því að samið yrði við Gauta um að aðstoða fyrstu tvo mánuðina við að setja nýjan fulltrúa sveitarstjóra á Djúpavogi inn í starfið.

Í bókun eru tillögurnar rökstuddar með því að kjörtímabil nýrrar sveitarstjórnar verði stutt og mörg mikilvæg verkefni þarfnist skjótrar úrlausnar. Þá þakkaði nefndin fráfarandi sveitarstjórum fyrir mikið og óeigingjarnt starf sem þau hefðu unnið við sameininguna.

Tillagan var tekin til formlegrar afgreiðslu þegar undirbúningsstjórnin hittist á ný í byrjun ágúst. Tillagan var þá samþykkt en naumlega. Þrír fulltrúar studdu hana, tveir voru á móti og tveir sátu hjá. Í bókun sem Helgi Hlynur, Hildur og Bergþóra Birgisdóttir, fulltrúi frá Djúpavogi, lögðu fram segjast þau hafna aðferðafræðinni sem hafi verið viðhöfð og að undirbúningsstjórnin sé komin langt út fyrir umboð sitt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.