Skip to main content

Tvo tíma tók að staðfesta staðsetningu útkalls í Laugarvalladal

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. ágú 2023 10:55Uppfært 22. ágú 2023 13:53

Rúmir tveir tímar liðu frá því fyrst var hringt í Neyðarlínu vegna manns sem lést í heitri náttúrulaug í Laugarvalladal aðfaranótt sunnudags þar til endanlega var staðfest hvert viðbragðsaðilar þyrftu að fara. Þá hafði þegar verið leitað á tveimur öðrum stöðum á Norður- og Austurlandi. Tungumálaörðugleikar og stopult símasamband á staðnum viðast hafa skapað misskilninginn. Atvikið verður rýnt hjá Neyðarlínunni.


Eins og Austurfrétt greindi frá í gær lést einstaklingur í náttúrulaug í Laugarvalladal á sunnudagsmorgun. Maðurinn var einn eftir í lauginni þegar samferðafólk hans gekk til náða. Það kom að honum látnum í lauginni og kallaði eftir hjálp. Talið er að hann hafi látist vegna veikinda. Maðurinn var erlendur ríkisborgari en með tengsl við Ísland.

Fyrst leitað inn við Hofsjökul


Samkvæmt upplýsingum frá Neyðarlínunni barst henni símtal þar sem tilkynnt var um atvikið klukkan 6:49 á sunnudagsmorgun. Símtalið stóð í 20 mínútur. Símasambandið var slæmt og tungumálaörðugleikar miklir.

Klukkan sjö voru viðbragðsaðilar á Norðurlandi eystra kallaðir út og þeir beðnir um að fara að Laugafelli, sem er norðaustur af Hofsjökli. Klukkan 7:19 bárust upplýsingar frá skálaverði á svæðinu um að þar þyrfti enga aðstoð.

„Ákvörðun um boðun að Laugafellslaug var tekin eftir að tilkynnandi hafði í tvígang staðfest að það væri hinn rétti vettvangur enda taldi viðkomandi sig vera á norðanverðu landinu,“ segir í svari Jóns Svanbergs Hjartarsonar, framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar, við fyrirspurn Austurfréttar.

Næst horft til Laugarfells


Fimm mínútum síðar var óskað eftir að þyrla Landhelgisgæslunnar yrði kölluð út. Áfram var reynt að hringja aftur í þann sem tilkynnti um dauðsfallið. Í samantekt Neyðarlínunnar segir að það hafi staðið yfir fram til 8:53. Á þessum tíma hafi samband ekki náðst eða slitnað strax aftur.

Samhliða þessu var reynt að finna út hvaðan tilkynningin barst. Til þess hlustuðu starfsmenn frá viðbragðsaðilum ítrekað á símtalið. Afrakstur þess var að klukkan 7:45 voru viðbragðsaðilar á Austurlandi boðaðir út og sendir að Laugarfelli á Fljótsdalsheiði. Klukkan 8:03 fór þyrla Landhelgisgæslunnar í loftið og tók stefnuna austur.

Klukkan 8:56 tókst loks að staðfesta að útkallið hefði borist úr Laugarvalladal, tveimur tímum og sjö mínútum eftir að fyrst var óskað eftir aðstoð. Sjúkrabíll var kominn á vettvang klukkan 9:19. Hann hafði þá farið í Laugarfell og leitað af sér grun þar. Þyrla gæslunnar kom í Laugarvalladal klukkan 9:32 og lenti á Egilsstöðum klukkan 10:17.

Eiga að fá upp staðsetningu


Eftir því sem Austurfrétt kemst næst er ekkert GSM-samband niður í Laugarvalladal sjálfum en hins vegar uppi á ásum í kring. Í svari Neyðarlínunnar kemur fram að tilkynnandinn hafi þurft að fara nokkurn spöl frá vettvangi og samt verið í slöku sambandi.

Þegar hringt er til Neyðarlínunnar á staðsetning síma að birtast starfsmanni á skjá um leið og hann svarar. Það gerðist ekki í þessu tilviki. Jón Svanberg segir að farið verði yfir hvers vegna það gerðist ekki. Notað er kerfi sem kallast AML og er sérstaklega gert fyrir neyðarboð. Með því má finna út staðsetningu snjalltækis í gegnum SMS eða vefkerfi.

Notendur síma geta lokað fyrir þessi boð. Jón Svanberg segir það einkum þekkt í erlendum símum. Í þeim tilfellum sem ekki tekst að staðsetja síma í gegnum AML kerfið eru send skilaboð í símann með vefslóð sem notandi getur notað til að staðfesta staðsetningu sína. Til þess þarf hins vegar að vera gott gagnasamband.

Á meðan aðgerðum stóð á sunnudag var einnig reynt að rekja símtalið í gegnum farsímasenda. Ekki tókst að ljúka því áður en útkallinu lauk.

Kanna hvers vegna tæknin virkaði ekki


„Það er mjög mikilvægt fyrir Neyðarlínuna að rýna þetta mál og draga lærdóm af því hvort og hvernig hefði mátt gera betur og hvort breyta þurfi ferlum með tilliti til þessa máls. Einnig þurfum við að finna út úr þeim atriðum sem varða tæknihluta málsins, það er hvers vegna staðsetning farsíma kom ekki fram og svo framvegis.

Að gefnum þeim forsendum sem Neyðarlínan hafði í upphafi málsins, það er samtalsins við tilkynnanda og staðfestingar hans á staðsetningu vettvangsins get ég ekki sagt að hér hafi verið gerð mistök við boðun viðbragðsaðila. Hins vegar varð ljóst þegar lengra leið á verkefnið að staðsetning vettvangsins var röng.

Varðandi GSM samband í Laugarvalladal þá liggur fyrir að þar er takmörkuð farsímaþjónusta eins og víða annars staðar á hálendinu. Það verður seint þannig að alls staðar verði samband þótt sífellt sé unnið að því að þétta og bæta það,“ segir í niðurlagi svars Neyðarlínunnar.