„Tvö stöðugildi nægja ekki”

Aðeins tveir sálfræðingar eru starfandi hjá Skólaskrifstofu Austurlands en hún á að sinna greiningum og ráðgjöf við alla leik- og grunnskólum á svæðinu frá Vopnafirði til Djúpavogs. Forstöðumaður segist þó bjartsýnn á úrlausn mála.


Á aðalfundi Skólaskrifstofu Austurlands í nóvember síðastliðnum kom fram að Sigurbirni Marinóssyni, forstöðumanni stofnunarinnar, þætti vöntun á frekari sálfræðiþjónustu miðað við þáverandi biðlista og eftirspurn. Þar segir einnig að staðan hafi verið viðvarandi undanfarin ár og almenn ánægja ríki með störf núverandi sálfræðinga og það verklag sem unnið er eftir. 

„Staðan er svipuð í dag, en þó hefur heldur minna borist á beiðnum upp á síðkastið. Staðan okkar er þröng, en það er staðreynd að tvö stöðugildi ráða ekki við allt það sem berst inn á okkar borð.Tvö stöðugildi nægja ekki, sálfræðingar okkar ráða einfaldlega ekki við allt sem berst inn til okkar og hvert mál getur tekið langan tíma. Því miður erum við að ýta töluverðum biðlista á undan okkur, en þá viljum við hafa sem allra stysta til þess að við getum veitt sem mesta ráðgjöf út í skólana,” segir Sigurbjörn.

Bjartsýnn á að jákvæðar breytingar verði á árinu
Þrátt fyrir að ekki sé gert ráð fyrir þriðja stöðugildi sálfræðings við Skólaskrifstofu Austurlands í ár er Sigurbjörn bjartsýnn. 

„Ég hef ítrekað talað um þetta við stjórnina og það hafa allir skilning á því hversu mikilvægt þetta er. Sveitarfélögin geta samþykkt að leggja til auka fjármagn eins og stundum hefur verið gert. Við höfum stundum fengið einhvern inn til okkar tímabundið en það er að mínu mati lakari kostur en að fá inn fastan starfsmann. Við höfum einnig horft til þess að vinna með öðrum, þá hugsanlega félagsþjónustunni. 

Ég er nú alltaf bjartsýnn, það þýðir ekkert annað. Ég ég bjartsýnn á að það gerist eitthvað á þessu ári því að stjórnin er mjög jákvæð, en sá samhljómur er afar brýnn til þess að eitthvað gerist. Þó svo að við séum ekki inn í þessari fjárhagsáætlun vil ég ekki útiloka að við fáum fjármagnið engu að síður.”

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.