„Því miður er þörfin mikil“

„Jól í skókassa“ er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Tekið verður á móti skókössum í Egilsstaðakirkju næsta fimmtudag milli klukkan 17:00 og 21:00.


Verkefnið er á vegum KFUM & KFUK, en fyrir jólin 2004 ákvað hópur ungs fólks innan að láta reyna á verkefnið hér á landi. Undirtektirnar voru frábærar og söfnuðust rúmlega 500 kassar það árið. Verkefnið hélt svo áfram að spyrjast út og árið 2005 urðu skókassarnir 2600. Sú tala hefur síðan tvöfaldast því undanfarin ár hafa borist í kringum 5000 gjafir.

„Því miður er þörfin alltaf mikil, kassarnir frá KFUM og KFUK á Íslandi fara alltaf til Úkraínu. Þar búa um 46 milljónir manna, atvinnuleysi er þar mikið og ástandið víða bágborið. Á því svæði þar sem jólagjöfunum verður dreift ríkir mikil örbirgð. Íslensku skókössunum verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.

Þar sér KFUM um að þeim er komið til barnaspítala, munaðarleysingjaheimila og fátækra fjölskylda. Í tengslum við verkefnið hefur líka stundum verið safnað peningum fyrir þvottavélum eða öðru þörfu á þessar stofnanir. Það fara alltaf einhverjir fulltrúar verkefnisins hér heima með út í byrjun janúar og fylgja kössunum eftir, en jóladagur í Úkraínu er 7. janúar.

Yfirleitt fara í kringum 5000 kassar frá Íslandi og er öllum komið í góðar hendur úti. Í fyrra sendum við um 200 kassa héðan frá Egilsstöðum, en Flytjandi gefur verkefninu flutninginn á kössunum til Reykjavíkur þar sem þeim er öllum pakkað í gám,“ segir Hlín Stefánsdóttir sem tekur á móti kössunum á Egilsstöðum. Athugið þó svo eina formlega móttakan sé á Egilsstöðum tekur Flytjandi við kössum um allt Austurland. 

 

Öll börn fái svipaða gjöf
Gjafirnar eru settar í skókassa og til þess að tryggja að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa.

Til að öll börnin fái svipaða gjöf að gæðum er fólk beðið að setja í hvern kassa hlut(i) úr fimm eftirfarandi flokkum;

  • Leikföng, til dæmis litla bíla, bolta, dúkku, bangsa eða jó-jó. Athugið að láta auka rafhlöður fylgja rafknúnum leikföngum.
  • Skóladót, til dæmis penna, blýanta, yddara, strokleður, skrifbækur, liti, litabækur eða vasareikni.
  • Hreinlætisvörur. Óskað er eftir því að allir láti tannbursta, tannkrem og sápustykki í kassann sinn. Einnig má setja greiðu, þvottapoka eða hárskraut.
  • Sælgæti, til dæmis sleikjó, brjóstsykur, pez, tyggjó eða karamellur.
  • Föt, til dæmis húfu, vettlinga, sokka, trefil, bol eða peysu. 
  • Svo er fólk hvatt til að setja 1000 krónur í kassana vegna sendingarkostnaðar til Úkraínu.

Hvað má ekki fara í skókassana?
  • Mikið notaðir eða illa farnir hlutir.
  • Matvara.
  • Stríðsdót, til dæmis leikfangabyssur, leikfangahermenn eða hnífar. 
  • Vökvar, til dæmis sjampó, krem eða sápukúlur.
  • Lyf, til dæmis vítamín, hálsbrjóstsykur eða smyrsl.
  • Brothættir hlutir, til dæmis speglar eða postulínsdúkkur.
  • Spilastokkar. Þar sem spilastokkar eru tengdir fjárhættuspilum í Úkraínu, er óskað eftir að þeir séu ekki gefnir í skókassana.

Nánar má lesa um verkefnið hér, sem og hvernig best er að ganga frá kössunum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.