Tvenn fjárhús í Breiðdal splundruðust í hvassviðrinu

Aflögð fjárhús við bæina Tóarsel og Engihlíð í Norðurdal í Breiðdal eyðilögðust í hvassviðrinu sem gekk yfir Austfirði í gær. Eigandi annars húsanna segir mikla vinnu við hreinsunarstarf framundan.

„Við byrjuðum daginn því við þurftum að vigta lömb fyrir skoðun. Þegar við erum að fara heim um klukkan tvö sjáum við plastdrasl fjúkandi út um allt. Þá voru húsin þarna innfrá greinilega sprungin,“ segir Arnaldur Sigurðsson, bóndi á Hlíðarenda í Breiðdal sem einnig heldur utan um Tóarsel.

Þar er um að ræða fjárhús og hlöðu. „Þetta er allt farið. Á Engihlíð, næsta bæ utan við Tóarsel, eru fjárhúsin fallin líka.“

Nokkur ár eru síðan fjárhúsin á þessum tveimur bæjum voru notuð sem slík en þau voru í báðum tilfellum nýtt sem geymslur. Í Tóarseli var um að ræða 400 kinda hús eða byggingar upp á um 500 fermetra. „Lætin hafa verið svo mikil að steyptir veggir hafa brotnað og fallið,“ segir Arnaldur. Eins losnaði klæðning af íbúðarhúsinu í Tóarseli.

„Hreinsunarstarfið sem framundan er gígantískt. Það er um það bil kílómetri frá Hlíðarenda og að Tóarseli. Samt eru járnplötur landleiðina hingað, plast í girðingum og út eftir öllu.“

Húsin á Hlíðarenda virðast hafa sloppið þokkalega fyrir utan einn glugga á fjárhúsunum. Arnaldur kveðst hafa frétt af tjóni víðar í Breiðdal, til dæmis séð myndband úr Suðurdalnum þar sem 40 feta gámur hafi oltið nokkra hringi og síðan bögglast saman eins og plastpoki.

„Þetta er með leiðinlegustu veðrum sem við höfum fengið lengi. Oft eru þetta hvellir sem klárast á nokkrum klukkutímum en þetta stóð svo lengi. Það var aldrei brjálæðislega hvasst hér að Hlíðarenda en það er byljóttara suður með fjallinu og svo sem ekki í fyrsta sinn sem útihús á því svæði skemmast í roki.“

Fyrrverandi fjárhús í Tóarseli í morgun. Mynd: Arnaldur Sigurðsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.