Tvær flugvélar á leið til Keflavíkur völdu að lenda á Egilsstöðum í nótt

Tvær af þeim fimm flugvélum sem lenda þurftu að lenda annars staðar en í Keflavík eftir að flugvellinum þar var lokað vegna sprengjuhótunar í nótt völdu að lenda á Egilsstöðum. Vel gekk að bregðast við þeim aðstöðum sem sköpuðust.

Keflavíkurvelli var lokað upp úr klukkan ellefu í gærkvöldi þar sem taka þurfti á móti bandarískri fraktflugvél eftir að ábending barst um að sprengja væri um borð. Völlurinn var lokaðu fram til klukkan þrjú í nótt.

Fimm flugvélar á leið til Keflavíkur þurftu því í snarhasti að skipta um áfangastað. Vél Play á leið frá Madrid lenti á Akureyri, önnur vél félagsins frá Barcelona fór til Edinborgar og vél Lufthansa frá Frankfurt lenti í Glasgow.

Tvær vélar lentu á Egilsstöðum. Annars vegar vél Wizz Air frá Varsjá og hins vegar Transavia France frá París. Báðar héldu för sinni áfram þegar opnað var í Keflavík og lentu þær þar á fimmta tímanum í nótt.

Samkvæmt svari Isavia við fyrirspurn Austurfréttar gekk vel að bregðast við þeim aðstæðum sem upp komu í nótt. Á það hefur verið þrýst af hálfu flugmanna og sveitarstjórna á Austurlandi að Egilsstaðaflugvöllur verði efldur til að auðveldara verði að taka við velum sem ekki geta lent í Keflavík við aðstæður sem þessar.

Þegar flugvellir lokast eru það flugstjórar viðkomandi véla sem þurfa að taka ákvörðun um hvaða varaflugvöllur er valinn. Ýmsir þættir geta spilað þar inn í, svo sem aðstaða á viðkomandi flugvelli, en yfirleitt er það svo að flugáætlun er gerð með varaflugvöll í huga áður en farið er af stað. Isavia hefur ekki upplýsingar um hvernig flugstjórarnir völdu sína lendingastaði í nótt.

Mynd úr safni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.