Tvær flugvélar Wizz Air lentu á Egilsstöðum

Tvær flugvélar frá ungverska flugfélaginu Wizz Air lentu á Egilsstaðaflugvelli upp úr klukkan sex í kvöld vegna óveðurs í Keflavík. Á fimmta hundrað farþega voru með vélunum.


Samkvæmt upplýsingum frá Isavia kaus Wizz Air að beina vélum sínum til Egilsstaða vegna storms sem hindrað hefur flug í Keflavík.

Vélarnar voru að koma frá Póllandi, annars vegar frá Kraká, hins vegar Wroclaw. Þær lentu á Egilsstöðum með tíu mínútna millibili þegar klukkan var rétt orðin sex í kvöld.

Til stendur að vélarnar fljúgi aftur til þeirra valla sem þær komu frá í kvöld. Farþegar geta því valið hvort þeir þiggi far með þeim til baka eða verði eftir á Íslandi.

Farþegi sem Austurfrétt ræddi við sagði farþega hafa fengið þær upplýsingar að þeir gætu valið um að fara frá borði og bjarga sér sjálfir með gistingu og fararskjóta, eða fljúga aftur til Póllands. Þar myndi Wizz Air útvega gistingu og flug síðar til Íslands.

Allmargir farþegar munu hafa kosið að fara frá borði. Þeir hafa verið tollafgreiddir á Egilsstaðaflugvelli í kvöld. Þar var talsvert löng biðröð við afgreiðsluborð bílaleignanna þegar Austurfrétt var þar á ferðinni á áttunda tímanum í kvöld.

Vélar Icelandair hafa lent í Keflavík en farþegar ekki komist frá borði vegna veðurofsans. Fjölda fluga til og frá vellinum í dag hefur verið aflýst.

Flugmenn og íslensk flugfélög hafa að undanförnu þrýst á um að Egilsstaðaflugvöllur verði efldur sem varavöllur fyrir Keflavíkurvöll. Samkvæmt drögum að grænbók um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi verður uppbygging á Egilsstöðum sett í forgang.

 

Uppfært: Vélarnar fóru frá Egilsstöðum rúmlega hálf níu í kvöld.



wizzair egs 20191004 0011 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.